151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður höfum oft talað um þennan ofanbyggðaveg en svo að það sé skýrt þá er það á hendi sveitarfélaganna. Ég heyrði reyndar þau gleðilegu tíðindi að verið væri að leggja slitlagið á svokallaðan flóttamannaveg í dag og hann lokaður fyrir vikið. Vegurinn er fyrir hendi en hann þyrfti að vera raunverulegur þriðji hringur í svæðisskipulaginu. Ég held að við hv. þingmaður getum orðið sammála um að senda þau skilaboð til sveitarfélaganna að það sé skynsamleg leið.

Á sama hátt og skipulag ofanbyggðavegar er á hendi sveitarfélaganna eða annarra aðila en okkar þá gildir það sama um flugið til Vestmannaeyja. Þar er ekki um að ræða hluta af ríkisstyrkta fluginu og það heyrir þar af leiðandi ekki undir samgönguráðherra, nema að því leyti að mannvirkin þurfa að vera fyrir hendi, þ.e. flugvöllurinn, flugleiðsagan og annað í þeim dúr. Þar gerðist það því miður að Isavia sagði starfsfólkinu upp. Ég hefði frekar viljað að menn reyndu fyrst að tryggja öryggishlutverkið, hvað varðar sjúkraflug og almannavarnir, en horfðu síðan á sóknarfærin, hvernig flugi verði komið á. Ég veit það af samtölum mínum að bæjarstjórnin og íbúar og fyrirtæki í Vestmannaeyjum munu verða tilbúin til samtals um það hvernig hægt sé að koma slíku flugi á. Ef verið er að horfa til lágmarksflugs á Covid-tímum verður ráðherra tilbúinn til þess líka. En þetta heyrir ekki beint undir ráðherra vegna þess að þetta er ekki ríkisstyrkt flug.