132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[16:29]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur skrifuðum við þingmenn Samfylkingarinnar undir þetta álit með fyrirvara hvað varðar álagningu og skiptingu búnaðargjalds. Ástæðan fyrir því að þrátt fyrir að fram hafi komið á fundi í nefndinni að samkomulag er um skiptingu búnaðargjaldsins milli búgreina teljum við í fyrsta lagi að það sé ekki hlutverk löggjafans að skipta gjaldtökunni niður á búgreinafélögin heldur eigi samtök bændanna að sjá um það og í öðru lagi er endurskoðun í gangi hjá nefnd sem hæstv. forsætisráðherra hefur skipað, en sú nefnd varð til vegna þess að árið 2002 leituðu samtök smábátasjómanna til umboðsmanns Alþingis og óskuðu eftir því að gjaldtaka í þágu hagsmunasamtaka þeirra yrði endurskoðuð.

Umboðsmaður Alþingis taldi sig ekki hæfan til að skera úr um það heldur beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að þetta yrði skoðað sérstaklega. Nú í sumar var skipaður starfshópur af forsætisráðherra sem á að skoða gjaldtökuna í þágu hagsmunasamtakanna í heild sinni. Við teljum því eðlilegt að það hefði verið beðið eftir því að sá starfshópur lyki sinni vinnu en við viðurkennum hins vegar að það er nauðsynlegt að gera þarna ákveðnar breytingar í kjölfar þess að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur og skrifum að fullu undir það, en höfum fyrirvarann fyrst og fremst vegna þess að þarna er ekki að okkar mati alveg skýrt hvert hlutverk löggjafans á að vera annars vegar og samtaka bænda hins vegar.