137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að ESB og ríkisstjórnarsamstarf.

[15:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð og Vinstri grænir gáfu eftir í stjórnarsáttmálanum varðandi ESB var alveg ljóst af hálfu formanns Vinstri grænna og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þetta væri samkomulag um að þingið fengi þetta mikla og mikilvæga mál til meðferðar en ekki síður hitt sem kom m.a. fram í máli hæstv. fjármálaráðherra á föstudaginn þar sem hann hnykkti á því að þingmenn Vinstri grænna gætu að sjálfsögðu greitt atkvæði eftir sinni bestu sannfæringu og samvisku í þessu máli. Þetta áréttaði hann sérstaklega eftir þessa sérkennilegu en engu að síður athyglisverðu uppákomu sem átti sér stað á föstudaginn þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kom upp og talaði greinilega út frá sínu hjarta. Um leið dró hann fram að hann hefði í rauninni verið kúgaður til að vera ekki á þingmálinu með þingmönnum úr öðrum stjórnmálaflokkum á þingi eða í besta falli var honum hótað því að stjórnarslit væru hugsanleg ef hann yrði á þessari þingsályktunartillögu. Þessa sögu þekkjum við öll.

Í viðtali sagði hæstv. forsætisráðherra að ef þessi tillaga um ESB yrði ekki samþykkt á þingi kæmi upp ný staða hjá ríkisstjórninni. Hún var að segja, skilaboðin voru þau til Vinstri grænna og formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingríms J. Sigfússonar, sem hefur margítrekað að þingmenn Vinstri grænna eigi að greiða atkvæði í þessu mikilvæga máli eftir sannfæringu sinni og samvisku, að þá væri komin upp ný staða. Hvað þýðir það, hæstv. forsætisráðherra, er stjórninni þá sjálfhætt?