138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

efnahagsástandið og brottflutningur af landinu.

[12:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Fyrir utan Framsóknarflokkinn kann að vera að ég sé sá eini í þessum sölum sem er þeirrar skoðunar að þingflokkurinn sé bara giska efnilegur. Ég held að þingmenn Framsóknar ættu mjög bjarta pólitíska framtíð ef þeir leyfðu sér þann munað að vera einhvern tíma jákvæðir. Hér kemur þessi ágæti þingmaður, hv. þm Eygló Harðardóttir, og hún er bara eins og öll hin, hún sér ekkert jákvætt. Hún vill ekki trúa því að það sé hugsanlegt að Íslendingar nái sér upp úr þessu. (Gripið fram í.) Þá segi ég bara eins og segir í hinni helgu bók, að hún verður, eins og Tómas, að leggja höndina í sárið, þá kannski trúir hún fyrst. Þá mun einfaldlega koma í ljós að Íslendingar eru að ná sér upp úr hruninu. Menn sjá að það er þrátt fyrir allt vaxandi þróttur svo víða í atvinnulífinu. Af hverju opna hv. þingmenn Framsóknarflokksins ekki augun og sjá það jákvæða? (Gripið fram í.) Það er allt í lagi þó að hið neikvæða verði með líka. (Gripið fram í.) Svo sé ég að hv. þingmaður hefur lært töluvert af rökfimi hér á þingi vegna þess (Forseti hringir.) að hún gerir mér upp þá skoðun að ég telji að það þurfi 18 þúsund Íslendingar (Forseti hringir.) að fara af landi brott til að ég trúi einhverju af svartagallsdraumum hennar. Það er ekki svo. Það sagði ég aldrei. (Forseti hringir.) En það eru einungis nokkur hundruð sem hafa flust frá landinu umfram aðflutta. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Það er rangt.) Það kalla ég ekki fólksflótta.