139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að fara yfir forsögu þessa máls eins og málshefjandi hefur reyndar gert. Þetta byggir á fyrirkomulagi sem komst á á sínum tíma en hefur hins vegar aldrei byggt á lagaskyldu ríkisins. Það hefur heldur aldrei verið um það samið sérstaklega. Mótframlög til Lífeyrissjóðs bænda sem ríkið hefur greitt hafa hvorki verið í búvörusamningnum né búnaðarlagasamningnum og hvílir þar engin lagaskylda á ríkinu, heldur hefur þetta verið fyrirkomulag sem hefur framlengst á grundvelli hefða, getum við sagt, eða þess sem á komst og ræðst þá af ákvörðunum fjárlaga hverju sinni. Þessi staða er mönnum væntanlega ljós og verður ekki á móti henni mælt.

Ríkið hefur líka stutt Lífeyrissjóð bænda með öðrum hætti, t.d. þegar söluandvirði eigna Lánasjóðs landbúnaðarins voru að stórum hluta til látin renna inn í lífeyrissjóðinn á árinu 2005. Þá munu um 2.630 millj. kr. hafa farið inn í lífeyrissjóðinn til að mynda honum eigið fé.

Það var alveg ljóst að landbúnaðurinn og stjórnkerfi og stjórnsýsla og rekstur í kringum landbúnað gæti ekki orðið ónæmt fyrir þeim erfiðleikum og þeim niðurskurði sem almennt gengur yfir í samfélaginu. Þegar ég gerði bændum ljóst í trúnaði í vor hvers væri að vænta í fjárlagafrumvarpinu og átti við þá samráð um það, þannig að ég mótmæli því nú að ekki hafi verið haft samráð við bændur um þessa hluti eftir því sem hægt var, kom í ljós og eftir umfjöllun í stjórn Bændasamtakanna að bændur lögðu höfuðáherslu á eitt atriði, að verja búvörusamninginn sem gengið var frá á útmánuðum 2009. Þeir settu í forgang að ekki yrði hróflað við honum og þeim mikilvæga grundvelli framleiðslunnar sem hann tryggir með fjárframlögum sínum. Þá var stefnan tekin á það að bera niður í öðrum kostnaðarsömum liðum þar sem ríkið er með útgjöld á sviði landbúnaðarmála í samræmi við þessa forgangsröðun eða þessa ósk bænda. Niðurstaðan varð samkomulag sem tókst um breytingar á búnaðarlagasamningi þar sem þau framlög eru verulega tekin niður og birtist í minni rekstrarframlögum til Bændasamtakanna, í mun minni greiðslum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Þá var þeim jafnframt tilkynnt hver yrði meðferð mála varðandi Lífeyrissjóð bænda, að ekki yrði gert ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingum frá ríkinu inn í greiðslu mótframlaga í fjárlögum ársins 2011.

Til þess hins vegar að auðvelda lífeyrissjóðnum og bændum að laga sig að þessum breytingum var lagt til hér við Alþingi, hvað Alþingi hefur á fallist það ég best veit, að lífeyrissjóðnum yrði veitt einskiptisgreiðsla upp á tæpar 300 millj. kr. sem væri ígildi um tveggja ára hálfs mótframlags eða eins árs fulls mótframlags eins og það hefur verið að undanförnu. Til marks um það að þetta var allt gert í tengslum við þá niðurstöðu sem varð um málefni landbúnaðarins í heild er að þegar gengið var frá búnaðarlagasamningi á haustdögum milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármálaráðherra og Bændasamtakanna fylgdi með bókun fjármálaráðherra um málefni Lífeyrissjóðs bænda þar sem þetta kemur fram, þ.e. að reiknað sé með að ríkið hætti þátttöku greiðslna í sjóðinn, en til að auðvelda Lífeyrissjóði bænda og sjóðfélögum umbreytinguna komi eingreiðsla til lífeyrissjóðsins upp á 294 millj. kr. sem sjóðurinn geti nýtt til að auðvelda sjóðfélögum aðlögun að breyttu fyrirkomulagi og þannig að sjóðurinn leggi síðan sínar áætlanir um að verða sjálfbær til frambúðar.

Þetta skýrir samhengi málsins. Þetta leiddi af þeirri ósk og þeirri forgangsröðun Bændasamtakanna sjálfra að verja búvörusamninginn. Við það verður staðið og fjárveitingar í samræmi við það í fjárlögum næsta árs. Þá er rétt að menn hafi í huga að búvörusamningurinn er verðtryggður og að hluta skerðinga frá fyrri tíð verður skilað til baka upp að vissu þaki. Það mun skila þeim mun meiru til baka sem verðbólga er lægri. Sú útfærsla þýðir að núna í ljósi mjög lágrar verðbólguspár fyrir næsta ár kemur meira af skerðingu frá árinu 2009 til baka en ella hefði orðið miðað við hærri verðbólgu. Það kemur bændum að sjálfsögðu til góða. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Þarna fannst sú leið sem var talin skást til að bændur og landbúnaðarútgjöld tækju að sínu leyti á sig a.m.k. verulegan hluta aðlögunar sem aðrir geirar gera en þó á þann hátt sem menn töldu best fyrir greinina, að tryggja framleiðslugrundvöllinn og kjör (Forseti hringir.) bænda í gegnum það með því að hrófla ekki við búvörusamningnum.