143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rík ástæða til að gleðjast yfir þeirri niðurstöðu sem náðst hefur um afgreiðslu fjárlaga ársins 2014 og fjáraukalaga fyrir árið 2013. Niðurstaðan felur í sér að hægt verður að greiða desemberuppbót til atvinnuleitenda á fjáraukalögum og að ekki verða innheimt komugjöld af sjúklingum. Hönnunar-, myndlistar- og rannsóknasjóðir fá alls 100 milljónir í aukin framlög og brothættar byggðir 50 milljónir.

En fyrst og fremst bera fjárlögin í sér von um bjartari framtíð á Íslandi. Greiðslur til velferðarmála eru auknar um 6 milljarða. Heilbrigðiskerfið fær 4 milljarða í aukin framlög og þær skattalegu ráðstafanir sem birtast í fjárlögum munu lækka tekjuskattsgreiðslur fjölda heimila á Íslandi um alls 5 milljarða kr.

Þegar sjást merki um aukna uppbyggingu í ferðaþjónustu og fréttir berast af öflugri fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu.

Þróunaraðstoð nemur 0,23% af vergri landsframleiðslu og er hærri en verið hefur ef frá er tekið árið 2013 þegar hún var tímabundið aukin til að framlengja líf síðustu ríkisstjórnar ef marka má orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Það fór ekki mikið fyrir því að fólk skammaðist sín við þá afgreiðslu. Fólk fyrirvarð sig alls ekki fyrir það. Þess vegna er gagnrýni minni hlutans á þennan þátt nú fullkomin hræsni. (BirgJ: Við erum að reyna að vera jákvæð hérna.) Niðurstaða fjárlaga felur í sér að markmiðið um hallalaus fjárlög næst. Það er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að hefja á Íslandi nýja uppbyggingu, landi og lýð til heilla, svo við endum á bjartsýnum nótum, herra forseti.