143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp og fagna samkomulagi því sem formenn stjórnarflokkanna náðu í gærkvöldi. Með samtali náum við árangri. Í grunninn erum við flest sammála um í hvernig samfélagi við viljum lifa. Fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldaleiðréttingum eru almennar aðgerðir sem munu létta heimilum landsins lífið, en þau eru grunnurinn að samfélagi okkar. En það þarf að huga að mörgu öðru og því er mikið fagnaðarefni að milli umræðna hefur tekist að auka verulega fjárframlög í heilbrigðiskerfið. Hér vil ég sérstaklega vekja athygli á að bætt hefur verið 405 millj. kr. í heilbrigðisstofnanir úti um land. Ég vil nefna sérstaklega sérstakt 200 millj. kr. framlag til öldrunarstofnana. Að jafnaði eru 250 manns á biðlistum og er þetta framlag leið til að leysa staðbundinn vanda vegna skorts á hjúkrunarrýmum og þarfar fyrir hvíldarinnlagnir. Það er vel.

Þá megum við ekki gleyma því hversu vel hefur verið hugað að almannatryggingum. Settar hafa verið allt að 6 millj. kr. til almannatrygginga, mest til styrktar eldri borgurum og öryrkjum. Þannig er verið að draga til baka skerðingar sem eldra fólk varð fyrir upp úr hruni.

Þá langar mig líka að fagna því að tekist hefur að bæta 50 millj. kr. í verkefni um brothættar byggðir sem er afar mikilvægur liður í því að halda landinu öllu í byggð. Við þurfum að verja landið okkar allt.