144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði hv. þingmann út í greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Hún notaði tíma sinn til þess að minna á fjárlög 2013 sem hún vill að enginn gleymi, enda voru það ágætisfjárlög. En ég tel þó mikilvægara að við gleymum ekki hruninu, af hverju það varð og lærum af því og komum í veg fyrir að það sama gerist aftur.

Aftur að greiðsluþátttöku einstaklinga. Eurostat hefur tekið saman niðurstöður um greiðsluþátttöku einstaklinga á Norðurlöndum. Þar stóðum við mjög illa strax á árinu 2012 og greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu á Íslandi hefur verið mikil. Núna er verið að auka hana þrátt fyrir þann stórkostlega viðsnúning sem hv. þingmaður talar svo oft um. Þrátt fyrir miklu betri stöðu er verið að auka greiðsluþátttöku sjúklinga. Margir tala um að þeir neiti sér um heilbrigðisþjónustu af því að þeir hafi ekki efni á að borga fyrir hana.

Ég vil endurtaka spurningu mína til hv. þingmanns, hvort hún telji að auknar álögur á sjúklinga samræmist stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum.