144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir situr í hv. fjárlaganefnd veit hún líklega um það flóð af umsögnum og beiðnum sem berast nefndinni alls staðar að af landinu. Það eru miklar væntingar bundnar við störf fjárlaganefndar á haustin. Það skal viðurkennast að fjárlaganefnd hefur komið mjög gleðilegum atriðum til framkvæmda sem óþarft er að tína til hér.

En vegna þess að hv. þingmaður talaði um að einhverjar tillögur þarna væru með litlum skýringartexta er það einfaldlega vegna þess að verið er að leggja til fjármagn í pottana. Ráðuneytin taka tillögurnar og greiða úr sínum pottum, þannig að í raun og veru eru pottarnir stækkaðir.

Ég held að þetta séu óþarfaáhyggjur sem þingmaðurinn sýnir í ræðustól, því ef frumvarp um opinber fjármál verður að lögum þurfa hvorki þingmenn né þeir aðilar sem sitja í fjárlaganefnd að hafa áhyggjur. Það á að fækka fjárlagaliðum (Forseti hringir.) niður í 70 og þar undir verða málaflokkar. Ég held því að það skerðist nú svolítið fjárveitingavald hvers þingmanns þegar það er orðið þannig (Forseti hringir.) að ráðuneytin eru komin með 70 risastóra potta og þurfa kannski ekkert endilega (Forseti hringir.) að fylgja vilja þingmanna í því.