145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi hitt naglann á höfuðið áðan þegar hann talaði um deilur um skipulagsatriði vegna þess að ég held að málið sé þess eðlis að búið er að búa til risastóran úlfalda úr pínulítilli mýflugu. Mörgu hefur verið haldið fram um það, talað um fjarveru utanríkisráðherra sem var við 1. umr. og var hér í gær. Talað er um að enginn stuðningur sé við málið. Þá hef ég bent á að það kemur hér fram í annað skipti, í bæði skiptin afgreitt úr stjórnarflokkum, afgreitt í tvígang úr utanríkismálanefnd með meiri hluta atkvæða. Svo er talað um að menn séu að leggja til lengri þingfund vegna þess að stjórnarandstaðan tali svo mikið í málinu. Ég hef fundið fyrir því að stjórnarandstaðan þarf að tala mikið. Mér finnst það sjálfsagt að leyfa mönnum að tala eins og þeir vilja, ekki ætla ég að takmarka það. En þá verða menn líka að vera tilbúnir til þess að lengja fundi. Ég hlustaði á ræður í gærkvöldi (Forseti hringir.) til miðnættis. Ég hlakka til (Forseti hringir.) að heyra þær fjölmörgu ræður sem verða fluttar í dag og megi stjórnarandstaðan tala og vera í andsvörum við sjálfa sig eins lengi og hún vill í þessu máli.