145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú höldum við áfram umræðu um þetta undarlega mál en ég tek eftir því að hér eru fáir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans. Auðvitað er það ekki þannig að við stöndum hér og veltum fram og til baka ákveðnum hugmyndum og kostum og göllum þeirra heldur stendur stjórnarandstaðan hér og talar um þetta mál án þess að brugðist sé við, alla vega er það ekki tekið alvarlega.

Mér þykir alveg þess virði og nauðsynlegra í sjálfu sér en að tala meira um þetta mál að ræða um það hvernig við tölum um þetta mál, eða öllu heldur hvernig við tölum ekki um það.

Í gær var umræða um þetta mál til miðnættis og hv. 4. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, bað um að fá að tala við hæstv. utanríkisráðherra. Það var alveg skýrt frá upphafi að hugmyndin var að eiga samskipti við hæstv. utanríkisráðherra, en það virðist þykja tiltölulega róttæk hugmynd hér á bæ. Jú, svo gerist það að hæstv. utanríkisráðherra mætir á svæðið og situr hér undir umræðu en gerir ekkert meira en það.

Nú gefur stjórnarmeirihlutinn sér oft að um sé að ræða málþóf þegar ekki er í gangi málþóf. Auðvitað höfum við oft farið yfir það að málþóf og viðlíka taktík hér á bæ er einkenni undirliggjandi vandamáls sem er valdaójafnvægið sem er viðvarandi í fjögur ár á milli kosninga. Svo virðist vera, virðulegur forseti, ég ætla ekki að gefa mér að það sé réttur skilningur hjá mér en það lítur þannig út fyrir mér, að meiri hlutinn gangi út frá því að ef hann taki þátt í umræðunni þá lengist hún bara og þá sé meiri hlutinn að taka þátt í að tefja mál. Þetta held ég að sé helber misskilningur. Ég held að það hafi verið sannað í gær að það sé misskilningur þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu því ef menn hefðu ætlað að þæfa og tefja hefði mátt búast við að aðrir færu í andsvör og nýttu þann tíma og gott betur og svo framvegis. En það gerðist ekki. Ræðu hv. þingmanns lauk og síðan hófst ræða næsta þingmanns, hv. 7. þm. Norðaust. Kristjáns L. Möllers. Ekkert kom frá hæstv. utanríkisráðherra sem þó sat þarna til að taka þátt í umræðunni, sem hafði verið boðaður á fundinn til að taka þátt í umræðunni.

Þetta er viðvarandi ástand hér á hinu háa Alþingi, að umræðan kemst ekkert áfram vegna þess að hún er bara öðrum megin. En ég spyr: Ef markmiðið í gær með ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar var að tefja, hvers vegna fór enginn í andsvar við hann? Hvers vegna biðu allir og hlustuðu á umræðuna? Jú, vegna þess að fólk var að bíða eftir hæstv. utanríkisráðherra, að hann færi í andsvar eins og hefur tíðkast á síðasta kjörtímabili. Þótt ég hafi ekki verið hér þá, þá veit ég til þess að ráðherrar á þeim tíma fóru í andsvör við pólitísku andstæðinga sína til þess að eiga það samtal. Auðvitað eru menn ekki alltaf sammála og það er í góðu lagi. En það verður aldrei nein málamiðlun og það verður aldrei nein lausn, hvorki í málinu sjálfu né starfsháttum hérna, ef fólk talar ekki einu sinni saman, alla vega ekki fyrir opnum tjöldum.

Hvað varðar málið efnislega þá eru í sjálfu sér enn þá sömu hlutir við það að athuga og hafa verið. Mér þætti afskaplega vænt um að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra, sem auðvitað er ekki hér, hvers vegna honum líst svona agalega illa á þá hugmynd að gera hið öfuga við það sem lagt er til í frumvarpinu, þ.e. að velja hinn möguleikann sem Þórir Guðmundsson stakk upp á í sinni margræddu skýrslu. Það var að flytja verkefni frá ráðuneytinu til ÞSSÍ, Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Við höfum ekki rætt þann kost ítarlega, í það minnsta ekki við hæstv. utanríkisráðherra eða aðra stuðningsmenn málsins sem eru jú margir þótt þeir komi ekki hingað í pontu og lýsi yfir afstöðu sinni. Nema þegar vill svo til að við erum að greiða atkvæði um lengd þingfundar, þá koma þingmenn stjórnarmeirihlutans og lýsa yfir því að þeir styðja málið. En þegar umræða um málið á sér stað þá fara þeir ekkert í hana. Og viti menn, ætli það komi ekki fyrir ef við í stjórnarandstöðunni förum upp í ræðustól og tölum um fundarstjórn forseta að við verðum sökuð um að tala efnislega um málið.

En burt séð frá því þá velti ég því fyrir mér hver sé ástæðan fyrir þessari þrjósku. Ég held að hluti af ástæðunni sé ein bölvanlegasta tilfinning sem mannskepnan á og það er stoltið. Ef stjórnarmeirihlutinn gæfi núna gaum einhverjum hugmyndum sem gætu kannski orðið til þess að útkljá þetta mál þannig að miklu fleiri græn ljós yrðu á þessari ágætu atkvæðatöflu en ella, þá væri hann að gefast upp einhvern veginn fyrir ofbeldi minni hlutans. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að fólk sem ekki getur gert málamiðlanir eigi ekki að taka ákvarðanir, í það minnsta ekki fyrir aðra. Þess vegna er þetta umrædda stolt einmitt svo bölvanlegt að mínu mati vegna þess að það meinar mönnum að taka þátt í umræðu því þeir fá ekki endilega allt sem þeir vilja í fyrstu atrennu. Fyrir utan það að hvorki hæstv. utanríkisráðherra né aðrir stuðningsmenn málsins hafa útskýrt hvers vegna þeir séu ekki reiðubúnir að íhuga þá að því er virðist ágætu hugmynd að setja ÞSSÍ inn í utanríkisráðuneytið án þess þó að leggja stofnunina niður. Í fyrra snerist málið um að reka alla og ráða upp á nýtt, eitthvað þannig, en nú er sagan önnur. Núna er sagan sú að ekkert muni raunverulega breytast og þess vegna sé þetta svo mikið smámál að við ættum ekki að vera að tala um það. En eftir stendur að ekki var haft samráð við starfsfólk í upphafi. Þá er komið upp klandur. Sú hugmynd er ekki rædd alvarlega að ÞSSÍ renni inn í utanríkisráðuneytið en verði þó ekki lögð niður sem er sérlega ámælisvert að mínu mati vegna þess að það er fordæmið sem Þórir Guðmundsson talar um þegar hann stingur upp á þessu. Hann segir að aðrar þjóðir hafa gert þetta, en það sem aðrar þjóðir eins og Danir og Norðmenn hafa ekki gert er að leggja slíkar stofnanir niður. Það sem þessar þjóðir hafa gert er að þær hafa vissulega lagt þessar stofnanir inn í ráðuneytin en án þess að leggja þær niður. Og ef það er eini ágreiningspunkturinn og varla er það risastórt atriði ef málið í heild sinni ekki stórmál, þá er það varla stórmál. Þá velti ég því fyrir mér hvers vegna ekki sé hægt að ræða þann möguleika. Hvers vegna ekki að ræða hann hér eða í nefnd? Hvers vegna ekki að ræða þetta í nefnd aftur ef svo ber undir?

Nei. Frekar vilja menn hafa þetta mál á dagskrá og ræða síðan frumvarp um opinber fjármál sem er auðvitað áhugavert mál sem ég vona að fái betri þingmeðferð en þetta og reyndar ætlast ég til þess og býst við því.

Hér á síðustu mínútunum get ég ekki annað en tekið aftur upp það sem ég talaði um í dagskrárliðnum störf þingsins áðan, en það er staða mála á Alþingi, sér í lagi svokallaðra þingmannamála. Til útskýringar fyrir áhorfendur þá er þingmannamál einfaldlega frumvarp eða þingsályktunartillaga, þingmál sem er lagt fram af óbreyttum þingmönnum en ekki ríkisstjórn. Þetta mál um Þróunarsamvinnustofnun er ríkisstjórnarmál eins og málið sem kallað er opinber fjármál. En nú á það að vera þannig að ríkið sé ekki æðsta stofnun lýðveldisins heldur Alþingi. Það er hugmyndin. Hún er ekki alveg rétt í praxís, hún er reyndar mjög röng í praxís að mínu mati, en þannig er alla vega kenningin eða hugmyndafræðin sem lýðveldið Ísland á víst að vinna eftir. Ég vil meina að það sé ekki tilfellið, ekki í reynd.

Það eru 134 þingmannamál, ýmist þingsályktunartillögur eða frumvörp, sem bíða 1. umr., 134 stykki. Það er til sú kenning að þetta sé stíflað vegna þess að eitt af þessum þingmannamálum er hið svokallað áfengisfrumvarp, sem er frumvarp um að heimila sölu áfengis meðal annars í matvöruverslunum og heimila einkasölu á áfengi. Það er enn þá í 1. umr., umræðu sem er ekki hægt að tefja að eilífu þar sem úthlutaður ræðutími hv. þingmanna er takmarkaður í 1. umr. Ég sé ekki hvers vegna menn henda því ekki bara á dagskrá og klára þá umræðu. Jú, hún tæki sjálfsagt sinn tíma enda er þetta mjög umdeilt mál og með réttu. Henda því svo inn í nefnd og taka til við að fara í þau mál sem eru ekki sérstaklega umdeild eða skapa í það minnsta ekki hatrammar deilur.

Nú hef ég ekki meiri tíma til þess að fara nánar út í það efni, virðulegi forseti, og lýk því máli mínu hér með.