145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurninguna og tel að frestun á gildistöku sé fín lausn, líka út af því að málið er ekki nægilega vel unnið. Það þarf að fá að þroskast betur, eins og ég minntist á í ræðu minni. Þetta var gert með náttúruverndarlögin og ég held að ágætisbragur væri á því að gera það, líka af því að mér finnst öll þessi framkvæmd vera vanbúin.

Varðandi þróunarsamvinnu í heild sinni hef ég hvorki orðið vör við það í máli forsvarsmanna núverandi ríkisstjórnar né stjórnarliða á þingi að vilji sé til að halda sig við þau viðmið sem við settum okkur. Við skulum hafa það líka í huga að mikið er talað um flóttamenn, til dæmis frá Sýrlandi núna, en ef maður horfir á kort af heiminum um flæði flóttamanna sem var nýverið birt sér maður að flóttamenn koma líka frá þeim löndum sem við erum að reyna að aðstoða. Ég held að mjög brýnt sé að aðstoða fólk líka heima fyrir og hjálpa því að byggja innviði sína. Mér finnst það, bara alveg eins og við vorum svo heppin að fá stuðning við á sínum tíma.

Mér finnst svo skrýtið að þjóðir sem hafa upplifað erfiðleika, ég upplifi svolítið eins og þetta sé einstætt fyrir okkur, að við getum ekki fundið til samkenndar. Mér finnst svolítið skrýtið og ég skil það ekki. Ég vil í rauninni ekki segja „við“ heldur er ákveðin stefna sem ekki er þess fær að búa til pólitíska sýn og framkvæmd sem byggir á samkennd og samhug.