145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Kannski er ástæða til að byrja á að lýsa ánægju með það sem ástæða er til að vera ánægður með sem er viðvera hæstv. utanríkisráðherra við umræðuna. Það er auðvitað gott að hann skuli sjá sér fært að vera við umræðuna því fjarvera hans frá henni á löngum köflum hefur skapað talsverð vandkvæði við að eiga samræðu um þetta mál. Enn ánægjulegra er að sjá að hann er næstur á mælendaskránni og ætlar væntanlega að nota tækifærið og skýra þau fjölmörgu atriði sem varpað hefur verið hér upp og þarfnast sannarlega skýringar við. Ekki er vanþörf á að heyra einhvern málflutning fyrir málinu. Eins og ég hef áður sagt við þessa umræðu er óvenjulega eftirtektarvert að hæstv. utanríkisráðherra virðist algerlega einn um það í stjórnarliðinu, þessum 38 þingmannahópi, að styðja þingmálið sem hér er á dagskrá fundarins. Það er að vísu rétt sem fram hefur komið að það er afgreitt eins og önnur stjórnarfrumvörp í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna. En við 2. umr. þessa máls sem staðið hefur hygg ég í heila vinnuviku er staðan enn þá einfaldlega sú að enginn þingmaður Framsóknarflokksins hefur talað fyrir málinu. Ef frá er talin aðkoma formanns utanríkismálanefndar, sem stöðu sinnar vegna verður auðvitað að mæla fyrir nefndarálitinu og vera við umræðuna, hygg ég að ég fari rétt með að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi farið í gegnum nein efnisrök sem hann sæi fyrir þessu þingmáli. Það er ákaflega óvenjulegt að þingmál eigi dagskrá þingsins í þingsalnum dag eftir dag eftir dag, kvöld eftir kvöld eftir kvöld, um það fjalli mikill fjöldi þingmanna og hafi við ýmsar og alvarlegar athugasemdir án þess að nokkur annar en ráðherrann einn sem flytur málið leitist við að halda uppi rökum fyrir málinu.

Mér virðist það afhjúpa algera einangrun hæstv. utanríkisráðherra í málinu sem er skiljanleg því þessi háttur á að reyna að keyra málið í gegnum þingið er svo fullkomlega óskiljanlegur. Ekki bara fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, ekki bara fyrir Ísland, Þróunarsamvinnustofnun og þróunarsamvinnuna heldur líka fyrir hagsmuni stjórnarflokkanna og skipulag stjórnarráðsins. Það er einfaldlega engin leið að botna í því fyrir hagsmuni hvers hæstv. ráðherra er að vinna hér annað þingið í röð nema ef vera skyldi, sem mann er farið að renna í grun, að staða ráðherrans sé ekki traustari en svo að hann geti ekki með nokkru móti fallist á að einhverjir aðrir hafi kannski eitthvað til síns máls í frumvarpi sem hann sjálfur hefur lagt fyrir þing. Að hann sé ekki nægilega sterkur á svellinu, virðulegi forseti, svo ég orði það nú með þeim kurteislega hætti, til að geta rætt við aðra um önnur sjónarmið og fallist á að það geti verið önnur gild rök í málinu sem gefi tilefni til að gera á því einhverjar breytingar, úrbætur eða endurskoða þætti eins og gildistöku eða fallast á einhvers konar sameiginlega úttekt eða aðkomu óháðra aðila eða eitthvað það sem til sátta mætti horfa. Það er algerlega óskiljanlegt.

Hvað hagsmunir liggja að baki því að gera skipulagsbreytingar í fullkomnu ósætti í þinginu um málaflokk eins og þróunarsamvinnu, aðstoð okkar við fátækustu ríki veraldarinnar? Það verður ekki séð að það séu neinir hagsmunir, ekki fyrir ráðherra, ekki fyrir Framsóknarflokkinn, því síður fyrir ríkisstjórnina, alls ekki fyrir utanríkisráðuneytið og síst þróunarsamvinnuna. Geta verið nokkrir þeir hagsmunir í því að gera þessa skipulagsbreytingu, sem sannarlega er formbreyting en ekki breyting á innihaldi þess sem við erum að gera, sem réttlæti að skapa ágreining um starfsemi sem góð, víðtæk og þverpólitísk sátt hefur verið um um svo langan tíma? Af hverju í ósköpunum á að skapa ófrið um þróunarsamvinnu, ekki bara einu sinni heldur tvisvar? Hvaða gríðarlegu hagsmunir felast í skipulagsbreytingunni sem gera að verkum að ráðherrann keyrir málið fram af þeirri einþykkni sem hann hefur til þessa gert? Það er algerlega hulið hvað það getur verið. Þótt sannarlega séu efnisleg rök fyrir áhyggjum af því að þetta skipulag sé verra en það skipulag sem við búum núna við, það sé minna eftirlit, meiri hætta á spillingu og ýmsum öðrum slíkum þáttum þá er það að flytja þennan þátt inn í ráðuneytið með engu móti svo mikilvæg breyting, stórt framfaraskref, að það forsvari að sundra samstöðunni um málaflokkinn. Þess vegna hefði maður haldið að það væri okkur öllum í hag og eðlilegt út frá sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar, þeirra flokka sem að henni standa og auðvitað fyrst og síðast út frá þeirri starfsemi sem við höfum öll borið gæfu til að hafa sátt um og allir utanríkisráðherrar til þessa hafa talað menn til sátta um, að menn leituðu leiða til að sætta sjónarmið, finna einhverja millileiki, frestunarákvæði, samkomulag um einhvers konar aðkomu annarra eða hvað það nú gæti verið sem mætti til sátta horfa. En nei. Ráðherrann situr einn af þessum 38 þingmönnum stjórnarflokkanna og virðist hafna öllum sáttaumleitunum.

Stóra spurningin sem eftir stendur er enn þá bara þessi: Hvers vegna í ósköpunum? Hvað er það sem ráðherrann er að sækja í þessa skipulagsbreytingu sem réttlætir það? Af hverju er bara haldið áfram og sagt: Nei, nei, nei, ég hlusta ekki á aðra, mér þykja ekki gild sjónarmið sem aðrir setja fram, ég er ekki tilbúinn til að taka mið af sjónarmiðum sem annar stjórnmálaflokkur setur fram, já, þó að það séu tveir stjórnmálaflokkar, þó að það séu þrír stjórnmálaflokkar, þó að það séu fjórir stjórnmálaflokkar. Mér er alveg sama um að allir forverar mínir hafi kappkostað að halda sátt og samstöðu um þennan málaflokk, ég ætla að spilla því. Hvers vegna í ósköpunum er gengið fram með þessum hætti? Það er bara slík ráðgáta. Ég fagna því enn og aftur að ráðherrann hafi hér fullan ræðutíma til að reyna að útskýra það fyrir fólki hvaða gríðarlega framfaraskref er falið í þeirri breytingu að það réttlæti að segja sundur friðinn um þennan mikilvæga málaflokk.