145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega mjög mótsagnakennt þegar þessir örfáu talsmenn aðrir en ráðherra sem hafa aðallega komið upp í andsvörum í umræðum um þetta mál — það eru fyrst og fremst tveir flokksbræður ráðherra, eða aðallega einn, úr Framsóknarflokknum — hafa reynt að taka til einhverra varna og gjarnan með þeim hætti að þetta sé hreint smámál, það sé verið að gera úlfalda úr mýflugu, þetta sé einhver léttvæg skipulagsbreyting, að mönnum skuli þá vera það hjartans ástríðumál að málið sé keyrt áfram á þennan hátt, ef það er ekki stærra en þetta.

Vandinn er sá hvað þann sem hér stendur varðar að ég er því algerlega ósammála. Ég tel þetta vera mjög stórt mál. Mér liggur við að segja að það sé mér hjartans mál hvernig staðið er að verki í þessum málaflokki og það hefur lengi verið það, í yfir 30 ár. Ég held að ég muni það rétt að ein af mínum fyrstu þingmálum, þegar maður var hér skjálfandi og titrandi á beinunum, taugaveiklaður ungur þingmaður — (Gripið fram í.) ég er það nú ekki svo lengur — voru þingsályktunartillögur um að auka í áföngum framlög til þróunarsamvinnu. Ég hef fylgst með því mjög vel síðan og auðvitað haft af því mikla raun lengst af, því miður, þessa tíma hversu grátlega lítið það hefur gengið að koma okkur upp úr hjólförunum í þeim efnum. Ég held að mjög árla á þingferli mínum höfum við verið komin í 0,19 eða 0,20% og síðan höfum við hjakkað við þau mörk upp og niður um 1, 2, 3, 0,0 prósentustig og það er auðvitað sorglegt.

Ég er því ósammála þessari nálgun af þeim ástæðum, af því að mér er það hjartans mál að vel að verki sé staðið hjá okkur. Þess vegna vildi ég svo innilega óska þess að við værum að ræða hvernig við gætum sameinað kraftana og stutt hæstv. utanríkisráðherra í þarfara verkefni, sem er að berjast fyrir auknum fjármunum á tímum hagvaxtar og batnandi þjóðarhags inn í þennan málaflokk. Það væri þess virði að eyða nokkrum kvöldum í það.