145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:10]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig til að byrja á því að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir mjög áhugaverða og góða ræðu. Nú er það þannig að ÞSSÍ annast tvíhliða þróunarsamvinnu sem Ísland veitir og það virðist vera frekar afmarkað hvaða samningar það eru. Það eru samningar við einhver nokkur lönd og þeir virðast vera í einhverju ferli. Ég skil ekki alveg af hverju utanríkisráðuneytið vill fá þá inn á sitt borð. Eftir því sem ég fæ best séð eftir að vera búin að leita mér upplýsinga varðandi þetta mál, eru um 70% af þróunarsamvinnu í heiminum tvíhliða þróunarsamningar.

Væri ekki eðlilegra varðandi það sem er svona rosalega vel skilgreint — og Þróunarsamvinnustofnun hefur nú verið margrómuð hér í þingsal — að hafa þetta tvískipt, að fjölhliða þróunarsamvinnusamningar, eins og UNDP (United Nation Development Program), séu þá í höndum utanríkisráðuneytisins þar sem í raun er um fjölþjóðlegt, diplómatískt starf að ræða á fjölþjóðlegum vettvangi, á meðan tvíhliða samningarnir væru í sértækri stofnun? Væri það ekki eðlilegt að mati hv. þingmanns? Mér sýnist það í fljótu bragði vera skynsamleg nálgun eftir að hafa reynt að kynna mér góða stjórnsýsluhætti.