146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar undir þessum dagskrárlið um störf þingsins að halda áfram með umræðu sem hefur átt sér stað bæði í dag og einnig í gær, undir liðnum um fundarstjórn forseta, um Alþingi og þær ákvarðanir sem hér hafa verið teknar og hvernig framkvæmdarvaldið virðist ekki telja sig þurfa að fylgja eftir.

Þetta hefur verið sérstaklega sláandi í umræðunni sem við höfum átt um samgönguáætlun. Ég verð að segja að ekki batnaði það með ummælum hæstv. fjármálaráðherra sem var vitnað í hér áðan þar sem var talað um að það væri nánast siðlaust af Alþingi að samþykkja vanfjármagnaða samgönguáætlun. Ég held að þetta snúi einmitt hinsegin. Það er auðvitað framkvæmdarvaldsins að koma til framkvæmda því sem hefur verið ákveðið í þessum sal.

Því miður er þetta á fleiri stöðum. Þannig var hér í gær fyrirspurn og umræða sem tengdist valfrjálsri bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, sem gengur undir nafninu OPCAT sem ekki hefur verið hrint í framkvæmd þrátt fyrir að hafa verið samþykkt á Alþingi í desember 2015. Þá sagði hæstv. dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen að það væri bara þannig með þetta blessaða fjármagn að það væri takmarkað.

Ég hef af þessu miklar áhyggjur að framkvæmdarvaldið virðist telja sig geta hunsað samþykktir Alþingis og bara vísað í að fjármagnið sé ekki til en er hins vegar algerlega prinsípelt (Forseti hringir.) á móti því að afla þeirra tekna sem nauðsynlegar eru til þess að geta hrint samþykktum Alþingis í framkvæmd. (Forseti hringir.) Ég er hrædd um að þetta endi með því að hæstv. ríkisstjórnin eigi ekki eftir að gera neitt því það verða ekki til peningar því það má ekki afla þeirra.


Efnisorð er vísa í ræðuna