148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:33]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er nú flestallt komið fram, held ég, um þetta mál sem ástæða er til að segja og ég tek undir allt það sem hér hefur verið sagt. Ég brýni forseta, brýni hæstv. forseta til dáða að standa vörð um sóma Alþingis.

Það er tvennt sem manni dettur í hug að gæti skýrt þessi ætluðu lögbrot. Annars vegar eins og fram hefur komið þessi hugmynd um að hér sé einfaldlega um að ræða aprílgabb. Og svo hins vegar að verið sé að endurskoða fjármálaáætlun í ljósi landsfundar Sjálfstæðisflokksins, að til standi að skera svo rækilega niður í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég bíð spenntur eftir að sjá þessa fjármálaáætlun og vænti þess að þingið muni taka hana og tæta hana í sig.