148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[16:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð líka að gera athugasemdir við það sem virðulegur forseti sagði í lok umræðunnar áðan um fundarstjórn forseta. Þá var reyndar annar sitjandi forseti. Það er annars vegar varðandi það sem verður bara lýst sem linkind gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég velti fyrir mér hvort samskipti Alþingis og framkvæmdarvalds væri öðruvísi ef forseti Alþingis kæmi aldrei úr stjórnarflokki. Það er áhugaverð hugmynd sem hefur af og til verið borin upp. Ég held að það sé alltaf tilefni til að ræða hana, óháð því hver er forseti hverju sinni.

Virðulegur forseti vildi sérstaklega ekki gera orðið lögbrot að sínu. En það er lögbrot. Þau eru misalvarleg, en þetta er lögbrot. Það getur ekki verið ágreiningur um það. Af hverju vill hann ekki nota það orð? Það skil ég ekki alveg.

Síðan verð ég að gera athugasemd við þetta sífellda hjal um virðingu þingsins þegar Alþingi sinnir eftirlitshlutverki sínu. Það bitnar ekki á virðingu Alþingis (Forseti hringir.) að við stöndum hér og spyrjum spurninga og sinnum því sjálfsagða hlutverki að hafa hemil á framkvæmdarvaldinu. Það er hluti af því sem við eigum að vera að gera hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)