149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel það vera mikið ábyrgðarleysi að vísa þessu máli frá. Þetta mál hefur fengið mikla umfjöllun í atvinnuveganefnd í rúma tvo mánuði. Nefndin hefur fengið til sín fjölda gesta og fjallað um málið á 11 fundum. Hafa verið miklar og góðar umræður um það með þeim gestum sem komu fyrir nefndina og bárust hátt í 50 umsagnir. Ég tel að við séum komin á þann stað að það væri mjög mikið ábyrgðarleysi að hafa áfram óvissu í þessum málum og byggja á núverandi lögum um veiðigjöld sem hafa mikla galla, til dæmis bara sveiflurnar sem yrðu ef þau væru óbreytt. Þá yrðu veiðigjöld á næsta ári rúmir 12 milljarðar en á árinu þar á eftir rúmir 2 milljarðar.

Þegar við erum komin með þetta góða mál í hendurnar og búin að fjalla ítarlega um það tel ég að við eigum að ganga frá því og ganga til atkvæða um það hér og nú en ekki draga lappirnar enn eina ferðina því að það (Forseti hringir.) er búið að vinna málið mjög vel.