149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Lengi má manninn reyna. Hér erum við þrír flokkar, Viðreisn, Samfylking og Píratar, að leggja til tímabundna samninga til 20 ára. Það hefur verið álitamál hvort það eigi að vera til 23 ára eins og Framsóknarflokkurinn vildi einu sinni. Við í Viðreisn höfum talað fyrir 25 árum en við setjum þessa tillögu fram með tvennt í huga: Til að undirstrika sameignarhluta þjóðarinnar því að það er ástæða til að efast um að hagsmunir þjóðarinnar séu nægilega tryggðir. Í öðru lagi en ekki síður til að veita útgerðinni fyrirsjáanleika til næstu 20 ára a.m.k. þannig að ekki verði hægt að taka þetta í einu vetfangi heldur sjái þau þetta með 20 ára fyrirvara, að skoða hvernig hægt er að byggja upp útgerðina áfram.

Hver og ein ríkisstjórn getur síðan ákveðið hvaða fyrirkomulag hún hefur en þetta skiptir máli, annars vegar fyrirsjáanleikinn fyrir útgerðir og hins vegar og ekki síður hagsmunir þjóðarinnar, að undirstrika að fiskveiðiauðlindin er sameign íslensku þjóðarinnar. Því má ekki breyta.