149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott innlegg. Hv. þingmaður er iðulega málefnalegur, en hann var kannski alveg sérstaklega málefnalegur núna á þessum stórafmælisdegi sínum. Ég vil nota tækifærið og óska hv. þingmanni til hamingju með afmælið. Ég er nú aðeins að gantast með þetta, það hefur ekki vantað neitt upp á að hann nálgist þetta með uppbyggilegum og málefnalegum hætti.

Hv. þingmaður kemur inn á ákveðna hluti sem við þurfum að ræða. Þetta snýr ekki, eins og ég hef sagt, bara að því starfsfólki sem að málunum kemur eða ráðherra. Nú erum við að auka við framlög og menn segja að við ættum að ganga hraðar í það o.s.frv., og það er alveg sjálfsagt og eðlilegt að ræða það, en það liggur fyrir að við erum að auka við og þá er spurningin: Hvar eigum við að bera niður? Hv. þingmaður hefur minnst á það að hann líti sérstaklega til landa í Suður-Ameríku.

Ég held að við eigum að nálgast þetta, eins og hv. þingmaður var að vísa til, út frá því að við þekkjum vel til í sjávarútvegi og í jarðhitamálum. Landgræðslan er algjörlega vanmetin. Jarðhitinn, landgræðslan og í rauninni sjávarútvegurinn líka, þetta eru loftslagsmál. Með jafnréttismálunum fer þetta síðan saman við það sem við höfum reynslu af og við getum miðlað af þeirri reynslu. Þá er spurningin hvar við eigum að bera niður. Við eigum að ræða það hér og sömuleiðis hjá hv. utanríkismálanefnd hvernig við viljum sjá þau mál þróast.

Það hefur líka verið minnst á að það útilokar ekki, sem hv. þingmaður vísar til, þær þjóðir sem nýta sjávarútveg eða vilja nýta sjávarútveg, m.a. eyríki. Það gæti kannski farið saman með því. Ég hefði áhuga á því, virðulegur forseti, af því að hv. þingmaður beindi engum spurningum til mín þá vil ég beina spurningu til hans, hvort hann gæti farið aðeins ítarlegar í þessa hugmynd sína varðandi Suður-Ameríku.