150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fimm ára samgönguáætlun, aðgerðaáætlun til ársins 2024. Í kjölfarið ræðum við svo samgönguáætlun fyrir næstu 15 árin. Þar er stefnan í samgöngumálum sett, helstu markmið sem vinna skal að. Hún tekur mið af annarri stefnumörkun stjórnvalda og er samþætt við ýmsar stefnur og áætlanir, svo sem byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun, og í henni er fjallað um fjáröflun til samgöngumála. Eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól hafa samgöngur áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið og eru jafnframt heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál og menningarmál. Skipulag og uppbygging samgangna ræður líka mjög miklu um samfélagsþróun, bæði til lengri og skemmri tíma. Við þurfum því að vanda okkur í allri áætlunargerð á þessu sviði eins og annars staðar.

Bættar samgöngur eru og eiga að vera áhugamál margra en í stuttri ræðu hér næ ég aðeins að koma inn á örfá mikilvæg atriði. Í stuttu máli er ég mjög ánægð með þá samgönguáætlun sem liggur hér fyrir. Hún ber þess glöggt merki að við erum komin á gott skrið með að greiða niður innviðaskuldina í vegakerfinu eftir hrunið þar sem stórauknu fjármagni er nú varið til vegagerðar miðað við fyrri tímabil. Vissulega erum við ekki að verða uppiskroppa með verkefni í vegamálum, við verðum það mjög seint á Íslandi, en hér eru stigin mikilvæg skref.

Það er líka mikilvægt eins og er í áætluninni að halda því við sem búið er að byggja upp, annars sóum við verðmætum. Samkvæmt fjármálaáætlun eru framlög til vegamála árin 2020–2024 aukin um 4 milljarða hvert ár frá þeirri áætlun sem við vorum að ræða á síðasta þingi. Framlög í þjónustu og viðhald á vegakerfinu eru aukin miðað við gildandi áætlun, hvort um sig, þjónustan og viðhaldið, fyrir meira en hálfan milljarð á ári.

Samgönguáætlun sem við samþykktum á vorþingi er nú uppfærð að ég tel í góðu samræmi við það nefndarálit sem ég ásamt fleirum lagði mikla vinnu í. Umhverfis- og samgöngunefnd fékk þá til sín fjölda gesta og fór ítarlega yfir samgönguverkefni sem liggja fyrir á næstu árum og áratugum. Vissulega erum við ekki búin að leysa öll þau verkefni sem við lögðum þá fyrir samgönguyfirvöld að ætti að vinna, en mörg eru komin í höfn.

Við afgreiðslu í vor lagði umhverfis- og samgöngunefnd gríðarlega áherslu á að auka þyrfti fjármagn til framkvæmda í vegakerfinu og það er því mikið fagnaðarefni að það skulu vera komnir til viðbótar 4 milljarðar á ári auk þess sem frumvarp um samvinnuverkefni er komið í samráðsgátt stjórnvalda og í áætluninni er gert ráð fyrir nokkrum slíkum verkefnum. Stærsta breytingin milli áætlana er að nýframkvæmdum sem nema um 214 milljörðum kr. er flýtt frá fyrri áætlun vegna viðbótarfjármagnsins sem kom í kjölfar umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar og samþykktar Alþingis.

Nú er búið að ganga frá samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og sá sáttmáli er birtingarmynd sameiginlegrar sýnar og heildarhugsunar fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu og er liður í því að leysa ríkjandi og fyrirsjáanlegan umferðarvanda. Stærstu einstöku framkvæmdirnar sem færast nær okkur í tíma eru jarðgangagerð á Austurlandi og stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þá er lagt upp með samvinnuverkefni ríkisins og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni og eins og hæstv. ráðherra rakti áðan hafa samvinnuverkefnin ótvíræða kosti, svo sem að fjármögnun utan fjárlaga veitir möguleika til að flýta frekar þjóðhagslega arðbærum verkefnum til að ábatinn skili sér hraðar til samfélagsins en ella. Þar að auki skapar þessi leið sterka hvata til nýsköpunar við hönnun, framkvæmd og rekstur og getur þannig dregið úr kostnaði. Áætluð samvinnuverkefni eru Axarvegur, hringvegur um Hornafjarðarfljót, brú yfir Ölfusá, tvöföldun Hvalfjarðarganga og jarðgöng í Reynisfjalli auk Sundabrautar.

Nú er sérstök jarðgangaáætlun sett fram í fyrsta skipti í mörg ár. Í henni er gert ráð fyrir að hafist verði handa við framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng árið 2022 og með þeim mun langþráð markmið um að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar nást. Í kjölfar þeirra er gert ráð fyrir að vinna hefjist við tvenn göng frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar og með þeim yrði hringtenging sveitarfélaga á Austurlandi að veruleika sem gæti umbylt Austurlandi, styrkt byggðir innan svæðisins og enn aukið á þau verðmæti sem Austurland leggur til þjóðarbúsins.

Stefnumótun og mótun framtíðarsýnar í málefnum flugsins hefur aldrei verið sinnt af öðrum eins krafti og síðustu ár og umræðan um flugmál verið mikil í samfélaginu. Fram er komin flugstefna sem er fylgiskjal með 15 ára áætluninni. Þetta er í fyrsta skipti í 100 ára sögu flugsins sem flugstefna er mótuð. Lykilatriði í henni er að stefna að því að millilanda- og varaflugvellirnir verði á einni hendi og Isavia taki ábyrgð á varaflugvöllunum. Notendur millilandaflugvalla verða að taka þátt í rekstri varaflugvalla með einhverjum hætti. Uppbygging varaflugvallanna á Íslandi er mikilvægt flugöryggismál fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs, náttúruhamfara eða óhappa.

Nú er stigið stórt skref í bættum rekstri og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Það liggur fyrir að frá og með áramótum taki Isavia við rekstri hans og þá skapast svigrúm strax á næsta ári til aukins viðhalds á öðrum flugvöllum. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga, sem sést kannski ekki í samgönguáætluninni, að í gegnum þjónustusamninginn við Isavia renna árlega 2,5 milljarðar til þjónustu við innanlandsvellina og þar af fer nú þegar yfir hálfur milljarður til flugvallarins á Akureyri. Við það að Egilsstaðaflugvöllur flytjist til Isavia skapast aukið svigrúm bæði fyrir flugvöllinn á Akureyri og aðra innanlandsflugvelli. Eins og áður segir er það skýrt í flugstefnunni að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðaflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta og að við uppbyggingu innviða þar verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi auk fluggáttarhlutverksins. Þar fyrir utan er innanlandsflugið auðvitað mikið byggðamál og einn lykillinn að jafnræði byggðanna. Samhliða bættu viðhaldi á flugvöllum landsins þarf þess vegna að jafna aðstöðumun landsmanna og þar er skoska leiðin sem áætlað er að taka upp seinni hluta næsta árs mikilvægt skref. Það er leið sem hefur reynst Skotum vel til að mæta óhagræði sem hlýst af háu flugfargjaldi, ónógri tíðni flugferða og breytilegri sætanýtingu. Skoska leiðin er leið sem Alþingi var sammála um við afgreiðslu samgönguáætlunar í vor að væri heppileg til að mæta þessu verkefni.

Í síðustu viku var undirritað samkomulag um nánari rannsóknir á flugvallarkostum á höfuðborgarsvæðinu en því samkomulagi fylgir trygging fyrir framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni næstu 15–20 árin a.m.k., trygging fyrir því að hægt verði að viðhalda flugvellinum og byggja upp flugstöð þar, (Forseti hringir.) en þar hefur varla mátt festa lausa skrúfu síðustu árin, (Forseti hringir.) og tryggir jafnframt að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni verður þar (Forseti hringir.) þangað til jafn góður eða betri kostur finnst. — Ég er rétt að byrja.