150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum samgönguáætlun, því miður í tveimur umferðum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst miður að við höfum ekki getað gert eins og vaninn er, að taka saman langtímaáætlunina og styttri áætlunina, og furða mig á því að einhver þingflokkur hafi ekki viljað taka umræðuna þannig. Að því sögðu skal ég viðurkenna að ég er ekki alveg búin að lesa mig í gegnum þessa samgönguáætlun. Það er hefð fyrir því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari vel yfir þetta mál og oft og tíðum verður einhver breyting á samgönguáætlun í nefndinni sem er auðvitað bara eðlilegt. Mig langaði að koma inn á þætti þar sem ég þekki ágætlega til og hef á sterkar skoðanir sem ég brenn þar af leiðandi fyrir að koma á framfæri.

Fyrst langar mig að segja að ég hef fagnað höfuðborgarsamkomulaginu og mér hefur fundist mikilvægt að vinna þétt með sveitarfélögunum. Ég þekki til á þeim vettvangi, þar sem ég hef unnið lengi að skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu, og skil mikilvægi þess að horft sé heildstætt á samgöngumálin á þessu svæði. Ég fagna því að það samkomulag sé komið í höfn en auðvitað treysti ég því líka að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari yfir það sem því tengist í þessari ágætu samgönguáætlun.

Ég er líka þingmaður sem hefur talað ítrekað fyrir borgarlínu og þreytist ekki á að tala um mikilvægi hennar. Þess vegna gleður það mig mjög að það sé skrifað ákveðið inn í samgönguáætlun að hér séum við ekki bara að fara í undirbúning, eins og við höfum svo sem verið í, heldur framkvæmdir alveg á næstu árum. Ég er handviss um mikilvægi borgarlínu og mikilvægi þess að við eflum almenningssamgöngur á sama tíma. Ég segi að hún sé ekki svar við því að hér verði samgöngur greiðar heldur sé hún meðal þeirra mikilvægu verka sem við þurfum að fara í til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þá þreytist ég ekki á að minna á að samkvæmt svæðisskipulagi og þeim áætlunum sem við höfum um fólksfjölgun má búast við því að fram til ársins 2040 muni fjölga um 70.000 manns og umferð þar af leiðandi aukast í samræmi við það. Ef ekki verður ráðist í eins mikilvægar aðgerðir og borgarlína er er ég ansi hrædd um að við sitjum ávallt í umferðarteppu með þeirri tímaeyðslu og mengun sem fylgir. Ég gleðst yfir því að borgarlínan sé hér og jafnframt yfir áherslu í samgönguáætlun, sem við höfum svo sem séð á síðustu misserum, á aðra virka samgöngumáta, eins og hjóla- og göngustíga. Ég held að þetta sé allt mikilvægt.

Ég fór að rýna í töfluna og mig langar að brýna hæstv. ráðherra til þeirra verkefna sem þegar er búið að ákveða eins og þau komu frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd síðast, þ.e. samgönguáætlun með þeim breytingum sem þá lágu fyrir. Þar var til að mynda tilgreint sérstaklega að í Vesturlandsveg, kaflann Skarhólabraut að Hafravatnsvegi, áttu að fara á árinu 2019 110 milljónir og árið 2020 400 milljónir. Ég finn þær tölur ekki í þessari samgönguáætlun. Mér er sagt að þær upphæðir hafi verið teknar saman í framkvæmdaáætlun höfuðborgarsamningsins og að þar sé þetta tilgreint á árinu 2019. Ég brýni bæði hæstv. ráðherra og hv. nefnd til að þessir fjármunir fylgi örugglega. Ég veit að þessum framkvæmdum er því miður ekki lokið og mun ekki ljúka fyrr en á næsta ári en það er mjög mikilvægt að þær geri það og að peningar fylgi í þetta verkefni.

Þá ætla ég að koma inn á annað því tengt. Mér er ljóst að uppi er ákveðinn ágreiningur á milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar um hljóðmanir sem fylgja þessari framkvæmd. Þetta er alls ekki eina sveitarfélagið eða eina dæmið þar sem uppi er ágreiningur á milli sveitarfélags og Vegagerðarinnar um kostnað. Ég ætla að nota tækifærið og brýna hæstv. ráðherra til að finna einhverja lausn á því máli og einna helst þannig að ekki þurfi að semja um það í hvert skipti fyrir sig þegar farið er út í framkvæmd hvert hlutfall sveitarfélagsins eigi að vera og Vegagerðarinnar, heldur sé það skýrt. Sumir vilja meina að það sé nokkuð skýrt í vegalögum en engu að síður virðist vera stöðugur ágreiningur um það. Ég legg til að á því verði ráðin bót þannig að það liggi ljóst fyrir hver tekur á sig hvaða kostnað í þessum efnum. Þegar um er að ræða þjóðvegi sem fara í gegnum þéttbýli er þörf á hljóðmönum og þær hljóta að vera hluti af þeim kostnaði sem felst í því að leggja þessa vegi.

Mig langar líka að brýna bæði hæstv. ráðherra og hv. nefnd til dáða varðandi Vesturlandsveg um Kjalarnes. Það var mjög miður þegar við fengum þær fréttir í sumar að sú framkvæmd sem átti að fara í þar hefði verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfismála- og auðlindamála. Ég held að það sé þá í fyrsta skipti sem gerð er krafa um umhverfismat á vegaframkvæmd — ekki á nýjum vegi heldur á því að breikka veg. Ég ætla ekki að tala gegn umhverfismati, það getur haft og hefur ágætistilgang, en við settum líka inn í skipulagslögin á sínum tíma kröfu um umhverfisskýrslu sem ég skildi sem svo að minni þörf yrði fyrir umhverfismat þegar verið væri að fara í svona framkvæmdir. Ég veit að slík umhverfisskýrsla fylgdi þessu skipulagi. Ég minnist ekki bara á þetta vegna þess að ég sé að brýna okkur til að fara í þær vegaframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Kjalarnesi, þetta er risastórt öryggismál og algjörlega nauðsynlegt að fara í þessar framkvæmdir fljótt og örugglega. Ég sé í samgönguáætlun áætlaða fjármuni í það á árunum 2020, 2021 og 2022 og svo á að klára verkefnið 2023.

Það sem ég óttast mjög í þessari framkvæmd er hvernig við ætlum að fóta okkur í þessu umhverfi þar sem við erum ekki einu sinni að leggja nýja vegi heldur hreinlega bara að gera örugga þá vegi sem við höfum. Það þýðir oft breikkun og ákveðnar breytingar. Regluverkið sem við höfum búið til í kringum framkvæmdir og skipulagsmál er orðið það flókið að það tekur fjölda ára fyrir vel menntaða verkfræðinga og aðra sérfræðinga sem koma að þessum málum að búa til alls konar skýrslur og helst skýrslur um skýrslurnar og mat á matinu sem fyrir liggur. Það er á borði hv. umhverfis- og samgöngunefndar, þó að hluti af þessu sé líka á borði hæstv. umhverfisráðherra, og við verðum að vera með skýrar og góðar leikreglur um hvernig við fótum okkur. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst okkur hafa tekist að búa til kerfi sem einhvern veginn bara vinnur fyrir kerfið og er ekki til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.

Ég brenn mikið fyrir þessu og þurfti að koma þessu hér á framfæri. Að öðru leyti held ég að ég þurfi ekki að fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Yfir hátíðarnar gefst ágætistími til að lesa sig í gegnum samgönguáætlunina og fylgjast með því sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd gerir í kjölfarið. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja samgönguáætlunina fram og óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd góðs gengis í að vinna með hana.