150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:34]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanninum andsvarið. Það má alveg segja að ég hafi verið „off topic“ — fyrirgefið orðalagið — í þessu svari en ég var að reyna að setja hlutina í samhengi. Hingað til hafa verið greiddir skattar og gjöld af öllum farþegum sem hafa komið inn í landið. 2009 er tekin ákveðin ákvörðun hjá flugráði og 2011 er varaflugvallagjaldið tekið af sem var, ef ég man rétt og það getur verið að ég muni það ekki alveg rétt, í kringum milljarður og átti að renna í þessa flugvelli. Þetta gjald er enn þá innheimt og það hefur ekki runnið í neitt annað. Hvert fóru þessir peningar? (ATG: Í Keflavíkurflugvöll.)Í Keflavíkurflugvöll. Þeir fóru ekki í varaflugvellina. Það var tekin pólitísk ákvörðun um að innheimta skatta og gjöld. Það var búið að finna út þá jöfnu að ákveðinn hluta þessara skatta væri hægt að nýta í þetta en ákveðið að í þeim aðstæðum sem við vorum þá væri ekki hægt að skirrast við, það þyrfti að byggja upp Keflavíkurflugvöll. Gott og vel. En núna er staðan sú að eignarhaldsfélagið eða opinbera hlutafélagið Isavia er vel rekið og með góða eiginfjárstöðu og safnar þessum gjöldum saman. Er til of mikils mælst að það verji raunverulega hluta af því fjármagni sem þó þegar var farið að renna til þeirra í þetta, þar sem þetta er grunnforsenda þess að það geti rekið Keflavíkurflugvöll? Ég held að það væri bara ekkert ósanngjörn krafa.