150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[20:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um stefnumarkandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem hér er sett fram eru lögð drög að úrlausn mikilvægra samgöngumála sem sum hafa lengi verið föst vegna deilna eða fjárskorts. Framlög til bæði viðhalds og þjónustu á vegum eru stóraukin, eða um ríflega milljarð á ári samtals út tímabilið. Það er óhjákvæmilegt að umræða um þetta seinna mál sé ekki ósvipuð umræðunni sem var áðan. Það er ekki hægt að tala um þessi mál nema í einu þótt valið hafi verið að gera það í tvennu lagi að þessu sinni.

Ég ætla að stikla á stóru í stefnunni en vísa að öðru leyti til fyrri ræðu minnar um fimm ára áætlunina. Það sem við erum að gera í þessu verkefni, þessari uppfærslu á samgönguáætlun, er að við flýtum vegaframkvæmdum, sem samtals eru metnar á um 214 milljarða, frá núgildandi samgönguáætlun, annaðhvort eru það ný verkefni, verkefni flutt framar í röðina eða þeim komið inn með fjármögnun með öðrum hætti en beint úr samgönguáætlun. Að loknu 15 ára tímabilinu verða umferðarmestu vegirnir, sem við leggjum mesta áherslu á út frá öryggissjónarmiði, til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskilda akstursstefnu, 2+1, 2+2 á Vesturlandsvegi alla leið fram hjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og Reykjanesbraut að flugstöðinni. Reyndar gildir það um bæði Suðurlandsveg og Reykjanesbraut að þeir vegir verða kláraðar á fyrstu tveimur tímabilunum, örugglega fyrir árið 2029 og væntanlega eitthvað fyrr.

Það er ekki rétt sem hefur komið fram að mikilvægt sé að allir vegirnir hér verði byggðir upp sem 2+2 með mislægum gatnamótum og öðru slíku. Vegagerðin telur að það muni kosta 40% meira í þjónustu þangað til umferðin verður komin í 20.000 bíla eða rúmlega það. Það er þess vegna sem þetta er lagt til svona. Það er einfaldlega skynsamlegra að nýta fjármunina betur núna og koma síðan seinna og klára tvöföldunina. Þannig er það gert til að mynda á nýjum vegi í Ölfusinu þar sem grunnurinn er lagður og ódýrara að bæta við fjórðu akreininni og breyta síðan hringtorgum í mislæg gatnamót þegar þar að kemur.

Við leggjum jafnframt í þessari áætlun á ráðin um enn frekari flýtingu með frumvarpi um samvinnuverkefni, fyrir utan þessa 214 milljarða. Í áætluninni er lögð aukin áhersla á að koma á samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða og tryggja þannig að þjóðhagslegur ábati þeirra skili sér hraðar en ella. Til að mynda er lagt til að hringvegur norðaustan við Selfoss ásamt nýrri brú yfir Ölfusá geti komið fyrr, fimm, sex, sjö árum fyrr, heldur en ef við værum með forgangsröðun í samgönguáætlun. Tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli auk Sundabrautar verði þannig unnin sem samvinnuverkefni fullfjármögnuð af einkaaðilum. Þar að auki munu Axarvegur og hringvegur um Hornafjarðarfljót verða framkvæmdir með svokallaðri blandaðri aðferð en þá stendur beint framlag af samgönguáætlun undir hluta framkvæmdakostnaðar og svo fjármagna einkaaðilar það sem upp á vantar. Þeim hluta þeirra verkefna er þannig haldið utan fjárhagsramma áætlunarinnar.

Það er verið að kanna fýsileika þess hvort aðilar séu tilbúnir að taka þátt í slíkum verkefnum og þegar það liggur fyrir verður haldið áfram. Það kemur frumvarp hingað inn á vorþingi til að óska eftir heimild til handa ráðherra að fara þá leið og ég vænti þess að því verði vel tekið miðað við þá umræðu sem hér hefur verið og mikilvægi þess að flýta framkvæmdum.

Hér er líka verið að leggja fram jarðgangaáætlun í fyrsta sinn í mörg ár, sem sagt sérstaka jarðgangaáætlun sem hluta af samgönguáætlun. Hún gerir ráð fyrir að hafist verði handa við framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng árið 2022 og þeim þannig flýtt umtalsvert frá núgildandi samgönguáætlun. Með því mun langþráð markmið um að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar nást fyrr en síðar. Í kjölfar þeirra er síðan gert ráð fyrir að það verði tvenn göng til viðbótar til að búa til hringtengingu á Austurlandi sem gæti umbylt lífskjörum almennings og styrkt byggðir innan svæðisins. Svara ég þar með gagnrýni formanns Samfylkingarinnar sem talaði um að mikilvægt væri að horfa til alls landsins. Ég er sammála honum að það er hættuleg þróun komin af stað. Hún er reyndar orðin sú að 84% íbúa búa frá Hvítá til Hvítár, á stórhöfuðborgarsvæðinu. En bæði það sem við erum að gera á Vestfjörðum og Austurlandi í því tilliti er einmitt verið að gera til að búa til svæði sem geta tekist á við áskoranir, frekari fækkun eða með öðrum orðum farið að byggja sig upp.

Við höfum náð sátt um framtíðarsýn og lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins, svokallaðan samgöngusáttmála. Sáttmálinn tengir saman hagsmuni allra aðila, boðar byltingu í uppbyggingu samgönguinnviða fyrir alla fararmáta; fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar. Þar er gert ráð fyrir uppbyggingu um allt að 120 milljarða á þessu 15 ára tímabili. 52 milljarðar fari í uppbyggingu stofnvega, tæpir 50 í uppbyggingu borgarlínu í almenningssamgöngukerfinu, rúmir 8 milljarðar fara í uppbyggingu göngu- og hjólastíga, göngubrúa, undirganga og tæpir 7 fara í sérstakar öryggisaðgerðir, umferðarstýringu sem lögð er áhersla á núna til að byrja með og mun hjálpa okkur verulega af stað við að bæta flæðið og aðrar flæðis- og öryggisbætandi framkvæmdir.

Við leggjum fram í fyrsta sinn stefnu í almenningssamgöngum milli byggða. Hin nýja stefna hefur það að markmiði að efla almenningssamgöngur sem valkost til ferðalaga milli byggðarlaga og styrkja þannig grundvöll þeirra og bæta mannlíf. Lykilviðfangsefni stefnunnar er að til verði heildstætt leiðakerfi á lofti, láði og legi. Aðgengi að upplýsingum um leiðir milli áfangastaða verði aukið og farmiðakaup auðvelduð. Ferðamátinn verður að vera samkeppnishæfur við ferðir með einkabílnum. Það hefur verið unnið að því áfram. Stefnan er komin og útfærslan heldur síðan áfram á næstu árum.

Við leggjum einnig fram í fyrsta sinn stefnu í flugmálum. Við höfum flogið hér í 100 ár og þetta er fyrsta stefnan. Ein af áherslum flugstefnunnar er að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðaflugvallar sem alþjóðlegra fluggátta, sem er stefna ríkisstjórnarinnar sem hefur verið unnið eftir. Við uppbyggingu innviða þar verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi. Það hefur jafnframt verið samið um það við Isavia að þeir taki að sér rekstur og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Við það verður til svigrúm strax á næsta ári sem m.a. nýtist til viðhalds á öðrum flugvöllum. Það er aukið fé til innanlandsflugsins strax á næsta ári sem nemur nokkur hundruð milljónum umfram þá 2,5 milljarða sem eru í þjónustusamningnum til flugvallakerfisins en eru ekki sundurliðaðir í samgönguáætlun, eins og kom ágætlega fram í máli einstakra hv. þingmanna. Það getur nýst auðvitað þar með talið á Akureyrarflugvelli en ég vil líka minna á í því samhengi að við settum 200 milljónir umfram samgönguáætlun í ÍLS-búnað á Akureyrarflugvelli til þess einmitt að styrkja hann sem nýja fluggátt inn í landið, ekki vegna þess að það væri krafa frá íslenskum flugmönnum og það væri nauðsynlegt öryggisins vegna heldur vegna þess að það var nauðsynlegt fyrir erlenda flugmenn sem þekkja ekki eins vel aðstæður þegar flogið er í aðflugi til Akureyrar til að auka öryggi þeirra og löngun til að fljúga á Akureyri. Við höfum því sannarlega staðið við það að halda þar áfram og ætlum að halda því áfram. Í því sambandi má nefna að við afgreiðslu fjárlaga var samþykkt að ríkinu væri heimilt að kaupa eða leigja húsnæði sem nýtist sem stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli.

Samhliða þessu öllu er ég sammála þeim þingmönnum sem hafa rætt um flugið, að við þurfum að finna leiðir til þess að auka fjármögnun á næstu árum í viðhald og uppbyggingu á flugvöllum landsins og jafna þannig aðstöðumun landsmanna. Skoska leiðin svokallaða er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi, þegar menn bera það saman. Greiðsluþátttaka stjórnvalda í Skotlandi hefur staðið frá árinu 2006, hefur reynst vel og það er ætlunin í samræmi við samþykkta samgönguáætlun að við tökum þetta kerfi upp næsta haust og að eftir ár geti íbúar landsbyggðarinnar notið góðs af henni.

Nýverið var undirritað samkomulag þess efnis að farið verði í nánari rannsóknir á mögulegri nýrri staðsetningu flugvallar á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur talsvert verið rætt hér í dag. Samningurinn tryggir framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri og það að hann muni áfram sinna innanlandsflugi og að ekki verði þrengt frekar að vellinum næstu 15–20 ár, hið minnsta. Þar með er hægt að byggja upp flugstöð og koma því á með skilvirkum hætti. Það er líka lögð áhersla á að til verði skilvirkt og samþykkt kerfi alþjóðaflugvalla á einni hendi og að stutt verði við möguleika á fleiri hliðum inn í landið eins og áður hefur komið fram.

Samningurinn sem við gerðum við Reykjavíkurborg, sem síðan í starfshópi koma að sveitarfélögin á Suðurnesjum, er líka mikilvægur í því tilliti að við megum ekki loka augunum fyrir því sem er ókannað. Við þurfum að svara því þannig að við getum tekið ákvarðanir á réttum grundvelli þegar við erum að tala um svo stórar fjárhæðir og svo mikil áhrif sem það hefur ef við tækjum ákvörðun um að byggja upp nýjan flugvöll á suðvesturhorninu. Ef það reynist hins vegar ekki hægt, ef Hvassahraun reynist ekki ganga, er líka samkomulag um að þá þurfi að setjast niður að nýju því að þá erum við svolítið komin á núllpunkt aftur nema hvað að við höfum þá tryggt að búið verði að bæta Reykjavíkurflugvöll á því tímabili til þess að hann standi undir því hlutverki sem hann þarf að standa undir þangað til jafn góður eða betri flugvallarkostur finnst í nágrenninu. Þar á meðal gildir það fyrir einka- og kennsluflugið sem við höfum fyrir margt löngu tekið á okkur í samskiptum við borgina að færa það við það tækifæri þegar staðurinn er fundinn.

Við leggjum jafnframt grunn að því að málefnum barna verði gert hærra undir höfði í vinnslu samgönguáætlunar framtíðarinnar og þau gerð þátttakendur í mótun stefnunnar. Landsmenn allir, hvar sem þeir búa, munu með einum eða öðrum hætti njóta þeirrar uppbyggingar sem áætlun þessi boðar. Í lok fyrsta tímabils verður komin á hringtenging Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum og uppbyggðum vegum á Dynjandisheiði. Á öðru tímabili bætist við uppbygging Vestfjarðavegar við Bíldudal og vonandi á næstu vikum verður boðinn út vegurinn um Teigsskóg svokallaðan eða Reykhólasveitina og þá verður kominn á uppbyggður vegur sem við höfum mörg hver hér verið að bíða eftir og uppbygging grunnkerfisins á Vestfjörðum þá þegar komið á allt annan stað. Hér talaði einn hv. þingmaður í dag um að hann hefði ekki séð nein stórvirki gerast á síðastliðnum tveimur árum en ég get farið yfir langan lista með honum ef hann vill.

Með vegbótum áætlunarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum til að mynda og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri verður þar af leiðandi á tímabilinu náð mikilvægu markmið í samgönguáætlun til langs tíma, þ.e. að tengja saman með bundnu slitlagi byggðir með yfir 100 íbúa og endurnýja margar eldri stórar brýr, svo sem brúna yfir Ölfusá, Jökulsá á Fjöllum, brúna yfir Lagarfljót, báðar brýrnar yfir Skjálfandafljót og eru reyndar fleiri brýr komnar á teikniborðið og aðrar voru þegar boðnar út í haust, ef ég man rétt, ég held að það hafi verið boðnar út fimm eða sex brýr á leiðinni til Hornafjarðar, hv. þingmaður, sem var að bíða eftir framkvæmdum.

Nýr vegur á milli Kotár og Morsár styttir Hringveginn um 5 km og fækkar einbreiðum brúm á Hringveginum um þrjár. Nýr vegur um Lón á þriðja tímabili mun stytta Hringveginn um 4 km og fækka einbreiðum brúm á Hringveginum um sex, þannig að það er mjög margt í pípunum.

Á öðru tímabili verður einnig unnið að endurgerð vegarins um Uxahryggi. Norðausturvegur í Aðaldal um Skjálfandafljót verður endurgerður á öðru tímabili og um leið afleggjast tvær einbreiðar brýr þar. Á fyrsta og öðru tímabili verður Strandavegur um Veiðileysuháls endurgerður og Vatnsnesvegur endurgerður með bundnu slitlagi á öðru og þriðja tímabili. Á þriðja tímabili verði svo Hringvegurinn suður fyrir endurbættur verulega.

Framlög til uppbyggingar hjólainnviða eru stóraukin í áætluninni. Framlög til tengivega aukast um 4,4 milljarða á tímabilinu að teknu tilliti til þess að Vatnsnesvegur er nú kominn á áætlun. En ég er sammála hv. þingmanni að þar er áskorun sem við þurftum að gera betur í, í tengivegakerfinu á Íslandi, það þarf meira fjármagn þar inn. Ég legg þess vegna til að að lokinni þessari umræðu um þennan hluta samgönguáætlunarinnar gangi þingsályktunartillagan til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðari umræðu.

Ég vil að lokum, vegna þess að ég heyrði talsverðar umræður um að hér væri mikið um áætlanir og stefnur, útskýra fyrir þeim þingmönnum sem ekki hafa enn þá áttað sig á því að þingsályktun er stefna og 15 ára áætlun er stefna til 15 ára. Fimm ára aðgerðaáætlun er betur niðurnjörvuð stefna og markmið um það hvað við ætlum að gera. Svo mun það skýrast á hverjum degi héðan í frá, þegar stefnan hefur verið samþykkt, hvort okkur takist að framkvæma í takt við þá stefnu. Séu menn að bíða eftir því sem gerist eftir 15 ár þurfa þeir auðvitað að bíða eftir því sem stefnt er að gerist eftir 15 ár. Þetta er stefna. Þetta er áætlun. Þetta er ekki loforðalisti eða listi daginn fyrir kosningar þar sem við segjum: Sjáið hvað við gerðum á síðustu fjórum árum. Þetta er stefna til næstu 15 ára.