150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[20:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að halda aðeins áfram með umræðuna um flugvallarmálin, það sem snýr að þjónustusamningnum. Það er búið að ganga frá samkomulagi við Isavia um Egilsstaðaflugvöll og þá losnar um fjármagn. Hvenær er von á að við heyrum eitthvað af sundurliðun á því fjármagni, hvernig við munum nýta það í framhaldinu á næsta ári? Ég er viss um að það eru margir sem bíða spenntir eftir að heyra af því.

Varðandi Hvassahraunsskýrsluna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta tengist, Hvassahraunið, Reykjavíkurflugvöllur og aðalskipulagið í Reykjavík þar sem er bara gert ráð fyrir norður/suðurbrautinni til 2022 og austur/vesturbrautinni til 2024, það eru ekki nema tvö ár í að aðalbraut Reykjavíkurflugvallar sé í aðalskipulaginu. Er ekki nauðsynlegt, eins og kemur fram í samkomulaginu, að ítreka það og fá það fram að borgarstjórnin í Reykjavíkurborg, meiri hlutinn í Reykjavík, breyti aðalskipulaginu með þeim hætti að gert sé ráð fyrir Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri til 2040 meðan þetta langa ferli fer fram, sem er einmitt rætt í Hvassahraunsskýrslunni, að menn geti farið í þetta 20 ára ferli sem kemur fram í skýrslunni að þarf að fara í, veðurfarsrannsóknir og aðrar rannsóknir og allt sem því fylgir? Þarf sá vilji af hálfu borgarinnar ekki að koma skýrt fram núna áður en menn fara í miklar pælingar? Þessi tímarammi í aðalskipulaginu verður að vera á hreinu í stóra samhenginu og ef hann er ekki til staðar þá erum við í slæmum málum vegna þess að ekki getum við haft flugvöllinn í Vatnsmýrinni ekki í aðalskipulagi og verið á sama tíma í þessu ferli sem einhverju óvissuferðalagi.