150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:01]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir greinargott svar. Það liggur þá nokkuð ljóst fyrir í þessu máli hver vilji hæstv. ráðherra er í málinu. Mig langaði að víkja þá aðeins að Isavia en fyrir ári síðan, ég held í lok nóvember á síðasta ári, sendi Isavia umsögn við samgönguáætlun sem við vorum að eiga við fyrir ári síðan, átta til níu síður, þar sem var sýnt fram á hversu illa flugvallarkerfi landsins stæði, þá var líka verið að tala um litlu flugvellina vítt og breitt um landið, í grunnnetinu og reyndar þó víðar væri leitað. Umsögnin sagði okkur það raunverulega að þetta kerfi er handónýtt eins og það er statt núna. Ég hef rætt hérna fjármögnun í fyrri ræðum í dag, fjármögnun kerfisins og hvað gerðist 2011 þegar það hvarf í raun milljarður út úr kerfinu. Er þetta ofarlega á listanum núna hjá ráðuneytinu og hæstv. ráðherra að fara í að laga þetta, varðandi þá miklu athugasemdir við grunnetið sem gerðar voru í umsögn Isavia fyrir ári síðan?