150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar til að víkja aðeins að þessu samkomulagi — kannski erum við að endurtaka okkur hér, ég og félagi minn, hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson. Ég vil ítreka það sem ég sagði hér fyrr í dag, ég ætla hæstv. ráðherra ekki annað en góðan tilgang einan í þessu. En það sem ég hef áhyggjur af er þetta nýyrði með nýtingarstuðulinn, það er ekki í samræmi við reglugerðina sem um ræðir heldur ætti þetta að heita nothæfisstuðull og miðast við reglugerð 464 frá 2007. Það sem ég hef líka áhyggjur af er orðalagið í samkomulaginu sjálfu og það er að ekkert er fast í hendi þó að Reykjavíkurborg lýsi yfir vilja sínum til að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur. Maður myndi vilja sjá það fastar niður sett þannig að völlurinn haldi sér örugglega vegna þess að tíminn sem þyrfti, ef farið yrði í uppbyggingu á nýjum velli, er einfaldlega það langur. Það er þetta orðalag, þar sem segir að starfshópurinn skuli skila skýrslu sinni og niðurstöðum fyrir lok árs 2021, sem er akkúrat degi áður en árið 2022 gengur í garð en þá er heimilt samkvæmt gamla samkomulaginu að loka norður/suðurbrautinni og svo þeirri seinni, eða síðustu öllu heldur, 2024.

Það er talað um innanlandsflugið, að miðað verði að því að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt en í gamla samkomulaginu frá 2013 segir, með leyfi forseta:

„Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar …“

Mig langar til að spyrja ráðherra: Eigum við von á því að þessir tilteknu þættir í flugstarfseminni víki af Reykjavíkurflugvelli?