150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst aðeins leiðrétta hv. þingmann. Ég sagði einmitt að í fimm ára áætluninni núna, í samgönguáætluninni, vantaði 1,5 milljarða 2022, 2023 og 2024 miðað við núgildandi fjármálaáætlun. Það kemur auðvitað fjármálaáætlun á hverju ári þannig að það er svolítil áskorun í því og við getum farið yfir það betur ef hv. þingmaður vill.

Varðandi fjármögnun standa yfir, eins og hér hefur aðeins verið rætt í dag, orkuskipti í samgöngum sem munu kalla fram að við þurfum að skipta um tekjukerfi á umferðinni. Það hefur líka komið fram að hæstv. fjármálaráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp sem miðar að því að hugsanlega verði hægt að taka upp nýtt gjaldtökukerfi strax á árinu 2022. Það er ekki markmiðið með endurskoðun á tekjumódelinu að hækka gjöld á bifreiðaeigendur heldur verður það gert með notendamiðaðri hætti. Við þekkjum í vaxandi mæli að allir þeir sem keyra á umhverfisvænum bílum í dag borga ekki til kerfisins því að þeir borga ekki bensín- og dísilgjöld og þegar þeim bílum fjölgar, vonandi sem hraðast, munu tekjurnar inn í þetta kerfi okkar minnka og hverfa smátt og smátt. Þess vegna er mikilvægt að sú fjármögnun komi þar inn.

Ég nefndi samvinnuverkefnin sem eru þá viðbótarverkefni. Þar er á ferð samvinna einkaaðila, lífeyrissjóða, fjárfestingarbanka, Vegagerðarinnar og annarra við hið opinbera um að fara í sérstakar framkvæmdir sem yrðu fjármagnaðar að fullu með slíku fé. Þá gætum við hækkað framkvæmdastigið og flýtt verkefnum sem eru ábatasöm fyrir alla, fyrir samfélagið og líka fyrir þann sem fer ferðina. Það er val um aðra leið og hún er stytting. Hún er þar af leiðandi loftslagslega jákvæð líka. Það er einn þáttur í því sem við erum að skoða í þessari samgönguáætlun.