151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

breyting á lögreglulögum.

[10:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Nýlega var lagt fram frumvarp um breytingar á lögreglulögum. Þar kennir ýmissa grasa, til að mynda er kveðið á um sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu í samræmi við þingsályktunartillögu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar sem Alþingi samþykkti fyrir nákvæmlega einu ári eða 17. desember í fyrra. Það er skemmtileg tilviljun og enn skemmtilegra að komin sé hreyfing á þetta mikilvæga mál. En mig langar að beina sjónum að öðrum þætti í frumvarpinu eða þeim sem lýtur að samstarfi lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir. Það stendur nefnilega til að bæta grein við lögin sem segir að erlendir lögreglumenn sem koma til starfa hér á landi muni fara með lögregluvald. Það verði síðan í höndum ríkislögreglustjóra að taka endanlega ákvörðun um hvort þessir erlendu lögreglumenn fái að fara með lögregluvald, en þó kemur ekki nákvæmlega fram hvað í þessu valdi felst.

Því langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvaða skilning hún leggur í það að útlenskir lögreglumenn muni geta farið með lögregluvald hér á landi. Hvaða heimildir gætu þeir fengið? Hvaða rök standa að baki veitingu slíkra heimilda?

Í frumvarpinu segir einnig að ráðherra skuli setja nánari reglur um samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld. Er sérstaklega minnst á vopnaburð erlendra lögreglumanna í því samhengi. Mig langar því einnig að spyrja hæstv. ráðherra hvað hún sjái fyrir sér í þeim efnum.