151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

breyting á lögreglulögum.

[10:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir að verið er að setja ákvæði í lögin um erlent samstarf lögreglunnar, en ég er að reyna að fá fram hjá ráðherra hvað veiting þessa lögregluvalds felur í sér, hvað hún sér fyrir sér, hvort það muni gefa erlendum lögreglumönnum heimild til þess að aðhafast hér á Íslandi. Hvaða skilning leggur hún í lögregluvald sem hægt er að veita erlendum lögreglumönnum? Hvað geta þeir gert? Samkvæmt orðalaginu í ákvæðinu virðist mér það a.m.k. mögulegt að bandarískir alríkislögreglumenn gætu elt uppi íslenskan hakkara eða þýskir lögreglumenn gætu mætt með schäfer-hundana sína við Seyðisfjarðarhöfn, nú eða að namibískir lögreglumenn gætu ráðist í húsleitir og handtökur á Dalvík. Telur ráðherra að skýra þurfi hverjar heimildir erlendra lögregluþjóna verða hér á landi eða á það algjörlega að vera undir ríkislögreglustjóra komið hvaða vald erlendir lögreglumenn muni hafa gagnvart íslenskum borgurum, gagnvart íslenskri lögsögu á Íslandi?