151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

breyting á lögreglulögum.

[10:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Með þessu ákvæði erum við bara að uppfylla alþjóðlegar skyldur okkar og þarna er kveðið á um að ríkislögreglustjóri geti ákveðið að aðilar sem koma hér til starfa í skiptum eða annað fari með lögregluvald, en ráðherra er líka heimilt að setja nánari reglur um þetta samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir, þar á meðal um vopnaburð erlendra lögreglumanna og upplýsingaskipti. Hérna er verið, eins og ég hef sagt, að uppfylla alþjóðlegar skyldur. Þetta verður ekki með þeim hætti sem hv. þingmaður nefnir, að hér geti bara komið lögreglumenn og haft lögregluvald án þess að það sé nokkuð skýrt af íslenskum yfirvöldum. Það verður skýrt, ríkislögreglustjóri ákveður með hvers konar hætti þetta er, í hvers konar samstarfi og ráðherra getur sett nánari reglur. Síðan gerir Prüm-samkomulagið kröfu um að samstarfsríki veiti löggæsluyfirvöldum gagnkvæman aðgang að gagnagrunnum t.d. og að sama skapi gerir sá samningur kröfu um aðgang íslenskra löggæsluyfirvalda að evrópska fingrafaragrunninum og kröfu um upplýsingaskipti og þetta er partur af þeim alþjóðlegu skyldum og samstarfi.