151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

almannatryggingar.

[10:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að taka einhverja vitræna, sanngjarna umræðu um þróun kjara þessa hóps þá þurfum við að nota staðreyndir, tölur og gögn. Á tekjusögunni.is, sem ég leyfði mér að fletta upp í meðan hv. þingmaður talaði, er hægt að skoða þetta bara krónu fyrir krónu, á grundvelli framtala og raungagna um það hvað er að gerast. Þegar maður skoðar lægstu tekjutíundina í hópi 66 ára og eldri og skoðar stöðu hjóna má sjá að kjör þeirra hér eftir fjármálahrunið voru svo slæm að heildarráðstöfunartekjur hjóna eftir skatt á mánuði voru um 200.000. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við. Núna hefur okkur tekist að koma þessari sömu tölu, sem lá í kringum 200.000 krónurnar, upp í 370.000 kr. Þetta eru framfarir. (Gripið fram í.) Þetta eru framfarir sem sýna (Forseti hringir.) að við höfum látið góðu árin, hagsældarskeiðið sem nú er nýlokið, renna til þess að bæta stöðu þeirra sem minnst hafa haft. (Gripið fram í: Þingmenn og ráðherrar.)