151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurði Mannréttindadómstólsins.

[10:54]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Nú þegar tæpar þrjár vikur eru liðnar frá dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu um að fjórir dómarar við Landsrétt hafi verið ólöglega skipaðir, bólar enn ekkert á viðbrögð við dómnum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Jafnvel þó að embætti ríkissaksóknara hafi ákveðið að fara yfir niðurstöðu yfirdeildarinnar og sé að skoða áhrif dómsins þá stendur það enn að dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að óþarfi sé að bregðast sérstaklega við dómi yfirdeildarinnar, dómar Mannréttindadómstólsins séu ekki lagalega bindandi og að í honum hafi komið fram ábendingar. Þetta eru mjög alvarleg orð sem koma frá dómsmálaráðherra landsins, að skauta fram hjá 46. gr. íslenskra laga um Mannréttindadómstól Evrópu sem kveður á um bindandi áhrif dómstólsins. Okkar ber frekar að sýna niðurstöðunni virðingu og leggja allt í sölurnar til að bregðast hratt og örugglega við dómnum.

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þeim atriðum sem er aðkallandi að bregðast við? Hvernig á að fara með þau mál þar sem dómararnir fjórir, sem voru ólöglega skipaðir í dóminn, dæmdu? Hver er staða dómaranna við Landsrétt út frá möguleikum á endurupptöku mála þeirra? Hvað ætlar ráðherrann að gera í málum þeirra dómara sem enn hafa ekki verið skipaðir í dóminn og hvernig eiga þau sem sækja um dómaraembættið sem nú er laust í Landsrétti, að geta treyst því að ferlið sé fullkomlega faglegt? Og síðast en ekki síst: Hver er réttur sakborninga? Hvað ætlar ríkið að gera gagnvart þeim rétti?

Herra forseti. Aðgerðaleysi er einfaldlega ekki í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar sem okkur ber að standa við. Nú er tíminn til að endurheimta traustið. Það er mikilvægara en að halda áfram að verja vonlausan málstað fyrrverandi ráðherra sem hunsaði leiðbeiningar embættismanna, virti varnaðarorð á Alþingi að vettugi og hélt sínu til streitu. Þess vegna væri gott að fá skýr svör frá hæstv. dómsmálaráðherra hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við þessum dómi nú þremur vikum seinna.