151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurði Mannréttindadómstólsins.

[11:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Að hlíta dómnum, segir hv. þingmaður. Dómurinn kveður á um að grípa þurfi til almennra ráðstafana til að leysa úr þeim vandkvæðum sem dómurinn skapar og koma í veg fyrir frekari brot. (Gripið fram í.) Það hefur þegar verið gert. Það var skýr niðurstaða sem fékkst frá yfirdeildinni sem mikilvægt var að fá, sem er mun skýrari en niðurstaða undirdeildarinnar. Fjórir dómarar hættu að sinna dómstörfum, augljóslega til að koma í veg fyrir möguleg frekari brot á grundvelli niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Þrír hafa fengið nýja skipun lögum samkvæmt. Dómurinn skapar engin vandræði sem ekki er þegar búið að leysa nema gagnvart einum dómara. Dómarar dæma sjálfir um sitt hæfi og eðlilegt að sá dómari fái tækifæri til að meta stöðuna. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti nefnt hvað á að gera. Hvað á ráðherra að gera, að hennar mati, til að stíga inn í mál er varðar hæfi dómara? (Gripið fram í.) Endurupptökudómi hefur verið komið á fót, (Forseti hringir.) það er verið að klára að skipa í hann. Það tafði ferlið að Alþingi var lengi að klára að kjósa í hæfisnefndina. (Forseti hringir.) Hjá endurupptökudómstóli getur fólk leitað réttar síns. (Forseti hringir.) Það er búið að bregðast við því sem stendur í niðurstöðu dómstólsins.

(Forseti (SJS): Forseta gengur illa að halda mönnum við ræðutíma, hvort heldur sem það eru þingmenn eða ráðherrar.)