151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:22]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum hér að greiða atkvæði um breytingu á búvörulögum en ég vil nýta tækifærið og minna hv. þingheim á að 10 af 13 umsögnum um málið voru mjög neikvæðar og vöruðu beinlínis við því að það yrði samþykkt, enda er hér verið að gera breytingar sem munu kosta neytendur beinharða peninga. Eins og Neytendasamtökin bentu á í umsögn sinni er þetta eina aðgerðin sem ríkisstjórnin hefur gripið til með það að markmiði að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins sem kostuð væri sérstaklega af neytendum.

Herra forseti. Þannig voru ASÍ, Samkeppniseftirlitið og Viðskiptaráð samhljóma í sínum umsögnum. Þingflokkur Samfylkingarinnar leggst gegn þessu frumvarpi en leggur áherslu á mikilvægi þess að bregðast við vanda greinarinnar og hvetur því ríkisstjórnina til að bregðast frekar við vanda bænda með beinum aðgerðum í formi fjárstuðnings og verja neytendur landsins fyrir verðhækkunum.