151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir minnihlutaáliti 3. minni hluta fyrir fjármálaáætlun fyrir 2021–2025. Ég vil í upphafi koma örstutt inn á vinnulag við fjármálaáætlun sem farið hefur fram við óvenjulegar aðstæður og ekki síst þar sem flóknar breytingar hafa átt sér stað milli umræðna, sem er ekki algengt. Þessar breytingar voru ekki aðeins lagðar fram til kynningar heldur afhentar um leið og þær voru kynntar á nefndarfundi. Það finnast mér ekki nægilega góð vinnubrögð. Á sama tíma voru langir þingfundir og því lítið svigrúm til að kynna sér þær áður en málið fór til umræðu í þingsal.

Ég tel að þetta mikilvæga mál hefði getað fengið vandaðri umfjöllun af hálfu nefndarinnar ef rýmri tími hefði gefist til þess að rýna í öll gögn málsins, sérstaklega í ljósi þess að áætlunin var uppfærð með mjög skömmum fyrirvara fyrir nefndarmenn fjárlaganefndar. Oft hefur verið bent á nauðsyn þess að gefa góðan tíma til undirbúnings funda í fjárlaganefnd í gegnum árin en ekki verður séð að það sé neinn vilji fyrir því að breyta þessu ferli til hins betra, því miður, og hvað þá í fordæmalausum aðstæðum efnahagsmála.

Þessi fjármálaáætlun er náttúrlega stefnuyfirlýsing þessarar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Þetta er sú aðferðafræði sem þeir ætla að hafa viðhafa í ríkisfjármálum næstu árin ef þeir komast aftur til valda að loknum kosningum, sem er miðað við stöðuna í dag fremur ósennilegt, að ég held. En annað í þessu er að það ríkir því miður verulega mikil óvissa enn þá í efnahagsmálum og er ekki að draga úr henni eftir fréttum í dag að dæma um bóluefni sem við fáum í minna mæli hingað til landsins en gert var ráð fyrir í áætlunum. Það getur vissulega haft áhrif á að viðspyrnunni seinki og hún verði ekki eins kröftug og menn gera ráð fyrir í þessari áætlun og í fjárlögum. Það er því spurning þegar upp er staðið hversu mikið mark er takandi á þessari áætlun sem verður samþykkt hér innan skamms, hvort hún verði ekki orðin úrelt fljótlega eftir að hún er samþykkt.

Ég held að hv. þm. Haraldur Benediktsson hafi komið inn á að það hafi verið mjög mikilvægt í því sem við höfum gengið í gegnum að ríkissjóður stóð vel fyrir veirufaraldurinn og að búið hafi verið að greiða skuldir mikið niður. Það er að sjálfsögðu hárrétt hjá honum. Hann nefndi stöðugleikaframlögin, að þau hafi skipt sköpum í því að lækka skuldir og ég tek alveg heils hugar undir það. Ég held að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hafi einnig komið inn á það. En þá vil ég líka nota tækifærið og benda á að það var ekki síst fyrir stefnu og hugmyndafræði þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem stöðugleikaframlögin urðu að veruleika og skipti þjóðarbúið verulega miklu máli, en þau voru nýtt til að greiða niður skuldir og gerðu það að verkum að ríkissjóður stendur vel í dag. Þetta má segja að hafi verið lokahnykkurinn, að hann hafi verið unninn í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Ég vil koma aðeins að mikilvægum þætti í þessari áætlun, það er skuldasöfnunin og mikilvægi þess að stöðva hana. Hún hefur aukist verulega á tíma veirufaraldursins og er ljóst að fram undan er mikil hækkun vaxtagjalda ríkissjóðs vegna aukningar á skuldum. Fjármagnskostnaðurinn kemur til með að aukast hratt. Gera má ráð fyrir að lántökuvextir, fjármagnskostnaðurinn, hækki í kjölfar aukinnar skuldsetningar og auki enn frekar á skuldsetningu ríkisins. Vextir eru lægri í samkeppnislöndum okkar og því þarf mun hærra hlutfall ríkistekna til að standa undir vaxtagjöldum hér á landi en erlendis. Það veldur því að annaðhvort þurfa skattar á Íslandi að vera hærri en í samanburðarlöndum okkar eða ríkissjóður að verja lægri fjárhæðum til samneyslunnar. Það er áhyggjuefni sé litið til framtíðar. Það er mjög mikilvægt að ríkissjóður fari eins varlega og hægt er í skuldsetningu og auki ekki á áhættu ríkissjóðs frá því sem orðið er. Hv. þm. Haraldur Benediktsson, framsögumaður fjármálaáætlunar, nefndi einmitt að ríkissjóður væri kominn á ystu nöf þegar kæmi að skuldsetningu og ég tek undir það. Það þarf að fara mjög varlega og gæta þess að þjóðarbúið verði ekki sett í þá stöðu að hér þurfi að hækka skatta til að ná aftur jöfnuði í ríkisfjármálum eða að koma þurfi til nauðsynlegs og mikils niðurskurðar til að ná nauðsynlegri sjálfbærni. Slíkt myndi bitna verulega á lífskjörum almennings og rekstrarhæfni fyrirtækja hér á landi.

Í áætluninni er gert ráð fyrir því að skuldasöfnun stöðvist árið 2025 og verði þá orðin u.þ.b. 60% af landsframleiðslu, sem er náttúrlega veruleg hækkun frá því sem var fyrir faraldurinn. Í minnisblaði fjármálaráðherra til fjárlaganefndar frá 15. desember sl. kemur fram að ekki verði við það unað að skuldir haldi áfram að vaxa samhliða miklum hallarekstri enda gangi það gegn grunngildi laga um opinber fjármál um sjálfbærni opinberra fjármála. Sett er fram meginmarkmið um að stöðva hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fyrir lok árs 2025, en til þess þarf að ná fram afgangi af frumjöfnuði ríkisins, en frumjöfnuður er kostnaður fyrir fjármagnskostnaði. Ekki verður séð að markmiði ríkisstjórnarinnar um að skuldasöfnunin verði stöðvuð fyrir 2025 verði náð. Þannig get ég ekki sagt að það felist lausn í þessari áætlun hvað það varðar þar sem rekstur ríkisins nær ekki að fjármagna að fullu vaxtagjöldin innan þeirra tímamarka sem ráðherra tilgreinir í bréfi sínu til nefndarinnar. Því má gera ráð fyrir að taka þurfi lán fyrir þeim. Það verður ekki betur séð en að skuldasöfnun ríkisins haldi því áfram eftir 2025 samkvæmt niðurstöðu heildarjafnaðar ríkisins.

Þá kemur einnig fram í bréfinu að aðhaldsráðstafanir skipti jafnt á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs en hafi ekki verið útfærðar í áætluninni að öðru leyti, hvorki hvað varðar einstaka tekjustofna né málefnasvið. Það má benda á að eitt af markmiðum fjármálaáætlunar er að leggja fram vel ígrundaða stefnu ríkisstjórnarinnar og því sé það ekki í anda laganna að útfæra ekki jafn mikilvægar forsendur og áætlunin byggir á. Á þessu stigi er því algerlega undir hælinn lagt að stefnan nái fram að ganga. Ég er þeirrar skoðunar, forseti, að hér þurfi ráðherra að gera mun betur til að tryggja trúverðugleika stefnunnar því að það þarf ekki að fjölyrða um hversu miklu máli trúverðugleikinn skiptir í þessu öllu saman. Stefna og áætlun sem fáir trúa á er einfaldlega ólíkleg til að ná fram að ganga. Það er mikilvægt að viðhalda aga í opinberum fjármálum en þó þannig að ríki ákveðinn nauðsynlegur sveigjanleiki til þess að bregðast við framtíðaráföllum.

Þá vekur athygli að gert er ráð fyrir að afkomuþróunin rúmist innan markmiða fjármálastefnu en gert sé ráð fyrir að nýta um helming þess óvissusvigrúms sem til skiptanna er strax á næsta ári, og við erum hér búin að hækka. Þrátt fyrir töluverða breytingu á spám um hagvöxt fyrir næsta ár er spá um atvinnuleysi á næsta ári sú sama og í uppfærðri fjármálastefnu, eða um 6,7%. Töluverðar líkur eru á að atvinnuleysi geti orðið meira á næsta ári ef hagvaxtarhorfur versna og eins og ég sagði áðan getur þetta því miðað orðið raunin, miðað við fréttir sem okkur bárust í dag um seinkun á bóluefni — eða kannski ekki seinkun á bóluefni heldur minna magn af bóluefni en gert var ráð fyrir. Þá getur þetta raungerst, því miður. Það liggja fyrir dekkri spár um atvinnuleysi, eins og t.d. spá Seðlabankans frá 1. nóvember sl. Ég tel að það sé vanmat á útgjöldum til atvinnuleysisbóta í þessari áætlun og að þau útgjöld gætu farið yfir 100 milljarða kr. næstu tvö árin. Það er því ákaflega mikilvægt að efla sköpun starfa og ríkisstjórnin verður að hafa trúverðuga stefnu hvað þetta varðar. Mikilvægt er að styðja vel við fyrirtækin svo þau geti haldið starfsmönnum sínum þannig að ekki komi til uppsagna og að viðspyrnan verði góð þegar hún fer af stað.

Ég ætla aðeins að víkja að kafla í nefndaráliti mínu sem ég hef gefið yfirskriftina „Úthald ríkissjóðs ekki endalaust“. Það verður að segjast eins og er að það er rauður þráður í gegnum nefndarálit mitt að skuldasöfnun ríkissjóðs er áhyggjuefni. Það er nú einu sinni þannig að lán þarf alltaf að greiða til baka og ég er þeirrar skoðunar og hef sagt það, herra forseti, að ég er ekki viss um að ríkisstjórnin hefði tekið svona há lán ef ekki væru níu mánuðir til kosninga. Samkvæmt þessari áætlun koma skuldir ekki til með að hætta að hækka fyrr en árið 2025 sem hlutfall af landsframleiðslu. Ég dreg það í efa. Sú hætta er fyrir hendi að skuldahlutfall ríkisins og sveitarfélaga geti verið komið í 65% af landsframleiðslu á þessum tímapunkti ef ekki verður gripið til ráðstafana. Það er gríðarleg breyting til hins verra á skömmum tíma. Hér skiptir því öllu að örva hagvöxt og það er langur tími og áhyggjuefni að það skuli taka fimm ár að ná jafnvægi í ríkisfjármálum ef það á annað borð næst. Uppfærð fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 325 milljarða á næsta ári og 909 milljarða á árunum 2021–2025. Verði óvissusvigrúmið nýtt að fullu, eins og heimild er til samkvæmt fjármálastefnunni nýju, verða skuldir ríkissjóðs komnar í 2.000 milljarða á fáeinum árum. Þetta eru gríðarlegar upphæðir, herra forseti.

Þótt dregið hafi úr óvissu um þróun efnahagsmála í kjölfar jákvæðra frétta af bóluefnum, sem breyttust síðan í dag, varar fjármálaráðuneytið við því að hagþróun árið 2021 geti orðið nokkuð óhagstæðari en þær spár sem liggja til grundvallar fjármálastefnunni. Ástæða þess er að einhverju leyti óvissa um fjölda ferðamanna á árinu.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá félögum mínum í Miðflokknum undir liðnum um fundarstjórn forseta, að nauðsynlegt er að ræða þá stöðu sem komin er upp varðandi bóluefnið, fréttir sem við fengum í dag um að það komi töluvert minna magn af bóluefni og seinna en gert var ráð fyrir, vegna þess að það hefur áhrif á svo margt. Það hefur áhrif á þessa áætlun.

Nái ferðaþjónustan sér á strik eru líkur á kröftugum hagvexti 2022 og 2023, nema frekari áföll séu í farvatninu, sem við vonum svo sannarlega að verði ekki. Þó svo ráðherra telji sig hafa mætt áhættunni af óhagstæðari hagþróun með mótvægisaðgerðum er ljóst að svigrúm til frekari viðspyrnu fer þverrandi. Það er vandséð að ríkissjóður geti haldið úti frekari mótvægisaðgerðum dragist kreppan mjög á langinn.

Við höfum úthald næsta ár og hér er verið að leggja grunninn að því með samþykkt fjárlaga og aukafjárlaga til næsta árs. En það liggur hvorki fyrir í fjárlagafrumvarpinu né er þess getið í fjármálaáætlun hvaða árangri þessi aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins, upp á tugi milljarða, hafa skilað þrátt fyrir að lög um opinber fjármál kveði á um að meta beri árangur af þeim aðgerðum. Það er ekki gott vegna þess að hér er verið að setja verulega fjármuni í hina ýmsu styrki. Hér er verið að setja núna upp í 20 milljarða í svokallaða viðspyrnustyrki. Svo sannarlega vonum við að þeir skili árangri en það þarf líka að meta það sem þegar hefur verið gert og hvaða árangri það hefur skilað. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í upphafi faraldursins einkenndust um margt af örvæntingu og voru ekki nægilega vel undirbúnar, eins og við sáum svo glögglega þegar stöndug fyrirtæki fóru að nýta sér úrræði eins og hlutabótaleiðina án þess að þurfa á þeim að halda. Hér var undirbúningur laganna einfaldlega ófullnægjandi.

Nú við síðari umræðu er gert ráð fyrir 63 milljarða kr. hækkun á fjárheimildum árið 2021 frá fyrri umræðu. Þar af vega ákvarðanir ríkisstjórnarinnar tæplega 48 milljarða kr., hagrænar eða kerfislægar breytingar nema tæplega 6,3 milljörðum kr., bundin útgjöld 4,7 milljörðum kr. og launa- og verðlagsbætur 1,7 milljörðum. Alþingi á einungis frumkvæði að rúmlega 2 milljörðum kr. af þessari tæplega 63 milljarða hækkun fjárheimilda fyrir næsta ár. Af þessu má sjá að hlutverk Alþingis sem fjárveitingavalds er í raun og veru óverulegt og vekur það upp spurningar um hverju hin mikla vinna fjárlaganefndar og þingsins er í raun að skila. Þetta hefur svo sannarlega verið mikil vinna í nefndinni og við þekkjum það, þeir nefndarmenn sem sitja í fjárlaganefnd. En það vekur upp spurningar í ljósi þessa hverju sú vinna hefur skilað sé horft til þeirra tillagna og frumkvæðis sem verið hefur innan þingsins sjálfs.

Í áðurnefndu minnisblaði frá hæstv. fjármálaráðherra kemur réttilega fram að Hagstofa Íslands ber ábyrgð á gerð þjóðhagsreikninga og hagskýrslna um opinber fjármál, sem felur m.a. í sér ábyrgð á túlkun og innleiðingu þeirra staðla og reglna sem um gerð þeirra gilda. Um er að ræða hinn svokallaða GFS-hagskýrslustaðal sem settur er af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann er alþjóðlegur og gefur færi á alþjóðlegum samanburði milli landa þannig að verið sé að bera saman réttu tölurnar og réttu sviðin. Ráðherra ber ábyrgð á framsetningu ríkisreikningsins en sá reikningur er endurskoðaðar af Ríkisendurskoðun og hlýtur því faglega umfjöllun óháðra sérfræðinga á grundvallaratriðum ríkisfjármálanna. Hins vegar eru þjóðhagsreikningarnir ekki endurskoðaðir af neinum hlutlausum aðila. Ég tel að ráðuneytið þurfi að hugleiða það að komið verði á fót sambærilegu gæðaeftirliti við gerð þjóðhagsreikninga og hagskýrslna og felst í endurskoðun ríkisreiknings af óháðum aðila. Það er mikilvægt að báðar framsetningarnar séu yfirfarnar af til þess bærum og hlutlausum aðila.

Alls hafa 24 stofnanir, sem áður voru flokkaðar utan hins opinbera, verið endurflokkaðar og teljast nú innan þess. Í þessu felst breytt flokkun ríkisaðila í fjárlögum, þ.e. rekstur og efnahagsreikningur þessara aðila mun teljast til hefðbundins reksturs ríkisins og sveitarfélaga og koma fram í opinberum hagtölum. Hér er t.d. um að ræða Lánasjóð íslenskra námsmanna og Menntasjóð námsmanna, flokkun Íbúðalánasjóðs fram til ársins 2019 og Húsnæðissjóðs og ÍL-sjóðs. Er þetta í samráði við álitsgerðir evrópsku hagstofunnar. Umfang breytinganna er verulegt en með þeim munu eignir og skuldir teljast með öðrum eignum og skuldum ríkisins og hleypur umfangið á efnahagsreikningnum á hundruðum milljarða króna. Einnig munu fjármagnstekjur og gjöld stóraukast þar sem hér er um að ræða umsvifamikla lánasjóði. Eins og fram kemur í minnisblaði hæstv. ráðherra er ljóst að þessar breytingar munu hafa áhrif á þau tölulegu skilyrði sem eru í lögunum um opinber fjármál því að skuldir hins opinbera samkvæmt núverandi skilgreiningu munu fara langt umfram þau 30% sem lögin kveða á um. Jafnframt kemur fram að ráðherrann vinni að úrlausn þeirra vandamála sem tæpt er á í þessu bréfi. Ég hefði talið, herra forseti, að fyrrgreind fyrirtæki og stofnanir hins opinbera hefðu þegar átt að vera komin inn í samstæðureikning ríkisins og því hefðu þessi áhrif fyrir löngu átt að vera komin fram í samstæðuuppgjöri ríkisins.

Herra forseti. Ég hef ekki farið hér yfir ýmsa útgjaldaliði og hvernig þeir birtast í þessari áætlun til fimm ára. Ég lýsi þó ánægju minni með að Landspítali – háskólasjúkrahús fái meira ráðrúm til að vinna á þeim halla sem verið hefur á rekstri spítalans. Ég gerði ítarlega grein fyrir þeim rekstrarerfiðleikum sem steðja að starfsemi Landspítalans í nefndaráliti mínu við fjárlög og vísa til þess. Ég vil þó segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að sjá ekki nein teikn á lofti um að mæta eigi eldri borgurum í þessari áætlun. Ég fór einnig ítarlega yfir stöðu kjara eldri borgara í nefndaráliti mínu við fjárlögin. Miðflokkurinn flutti þrjár breytingartillögur við fjárlögin við 2. umr. sem sneru að eldri borgurum og því að bæta kjör þeirra. Þar vil ég nefna 70.000 kr. skattfrjálsa eingreiðslu. Þar vil ég nefna að eldri borgarar fái þær hækkanir sem aðrir fá á næsta ári þegar horft er til lífskjarasamningsins og í þriðja lagi vorum við með tillögu um að atvinnutekjur skerði ekki lífeyristekjur, allt mikilvægar tillögur. Því miður voru þessar tillögur felldar af stjórnarmeirihlutanum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Vinstri grænum. En við gefumst ekki upp og höldum áfram. Það eru mikil vonbrigði að ekki megi sjá neina áætlun um að bæta kjör eldri borgara í þessari fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Það sýnir kannski hvar áherslur þessara flokka liggja og ættu hagsmunasamtök eldri borgara að hafa í huga að það er alveg ljóst að þessir flokkar stefna ekki á það að rétta hag eldri borgara á næstu árum.

Helsta áskorun stjórnvalda í fjármálaáætluninni er að snúa við miklum hallarekstri, eins og ég nefndi í upphafi, og eigi síðar en á lokaári áætlunarinnar. Mikill halli á ríkissjóði í einhver ár hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir þjóðarbúið. Við þekkjum þetta. Skattalækkanir verða væntanlega skammgóður vermir eftir allt saman nema hagvöxtur verði þeim mun meiri, sem verður því miður að teljast ólíklegt og er það staðfest í áætluninni þegar segir, með leyfi forseta: „Ólíklegt er þó að vöxturinn verði slíkur að ekki þurfi að grípa til aðgerða að einhverju marki til að stöðva skuldavöxt.“ Þetta segir allt sem segja þarf.

Hagvöxtur á Íslandi hefur verið sveiflukenndari en hjá nágrannaþjóðum okkar enda hagkerfið lítið og opið. Áfall í okkar stærstu atvinnugrein, ferðaþjónustunni, hefur haft veruleg áhrif á hagvöxt og þróun hans. Fyrir skömmu breytti Alþingi fjármálastefnunni á þann veg að hún leyfir nú meira svigrúm til útgjalda án fjármögnunar. Hún leyfir meiri skuldasöfnun og halli ríkisins má þannig ná að hámarki á bilinu 7–16% af landsframleiðslu.

Almennt séð á skuldsetning hins opinbera einungis að standa undir fjárfestingum og skattar að standa undir rekstri og tilfærslum. Ljóst er að í fjármálastefnunni er aukin skuldsetning notuð til að fjármagna að hluta rekstur og tilfærslur. Ekki kemur fram þar hve mikið af skuldaaukningunni teljist fjárfestingar. Verðbólga er í vexti og það þarf að fylgjast mjög vel með þróun hennar í þeim aðstæðum sem við erum í núna. Ég hef áður talað fyrir þessu. Ef Seðlabankinn nýtir sér peningastefnuna til að reyna að hafa áhrif á hagvöxt, atvinnuleysi og raunvexti með því að þenja efnahagslífið kerfisbundið þá veldur það óstöðugleika og stöðugt vaxandi verðbólgu. Hér er nauðsynlegt að feta hinn gullna meðalveg. Umfangsmikil lántaka hins opinbera er fyrirsjáanleg. Huga þarf að því að fjármálastefna og peningastefna vinni vel saman og hið opinbera ýti ekki út einkafjárfestingum með umsvifum sínum á lánamarkaði og meira mætti fjalla um samspil fjármálastefnu og peningastefnu í þessari fjármálaáætlun.

Athygli vekur að heildarútgjöld til sjúkrahúsþjónustu fara lækkandi í fjármálaáætluninni eftir 2023 en OECD reiknar með að útgjöld til heilbrigðisþjónustu á Íslandi þurfi að hækka á næstu árum, t.d. vegna fjölgunar aldraðra. Vissulega byggist lækkunin á því að framkvæmdum við nýjan Landspítala muni ljúka á tímabilinu en hafa verður þó ráðrúm til að mæta fyrirsjáanlegum auknum útgjöldum til heilbrigðisþjónustu. Á því er ekki tekið í þessari áætlun.

Ef við lítum hér aðeins í lokin á fjárlög og fjármálaáætlun þá eru þessir tveir málaflokkar litaðir af kosningum á næsta ári. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að hagvöxtur verði strax á nýju ári og ferðaþjónustan taki við sér á ný er ekki dregið úr útgjöldum. Að því leyti má segja að fjárlög fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun 2021–2025 séu lituð af kosningum sem fram undan eru eftir einungis níu mánuði. Það er lagt í hendur næstu ríkisstjórnar að ná niður halla ríkissjóðs. Ríkisstjórn sem á níu mánuði eftir af stjórnarsetu sinni telur mikilvægt að sett verði skýr og raunhæf stefnumið um að stöðva hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar og rjúfa með því vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar til að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera, eins og segir í fjármálaáætluninni. Ríkisstjórnin þorir hins vegar ekki að mæta miklum halla með því að draga úr umsvifum og þeirri sóun sem ríkir í ríkisrekstrinum, eins og fjármálaráðherra hefur margoft nefnt. Til þess er of stutt til kosninga.

Gera verður eðlilega kröfu um skilvirkni og hagræðingu í allri starfsemi hins opinbera og á það skortir í þessari fjármálaáætlun. Þetta er auðveldlega hægt að gera án þess að það bitni á þeim sem þurfa aðstoð í erfiðleikum og miklu atvinnuleysi. Við í Miðflokknum vorum t.d. með hagræðingartillögur í fjárlögunum, breytingartillögu um að hagræða í öllum ráðuneytum um 5%. Það er ekki há upphæð en hefði skilað hálfum milljarði í sparnað fyrir ríkissjóð. Það er eðlilegt að ríkið gangi fram fyrir skjöldu með því að hagræða í því árferði sem nú er og það er vel hægt að hagræða án þess að þurfi að koma til uppsagna eða það bitni á þeim sem þarf að aðstoð. En á þetta var ekki fallist og tillagan var felld. Að það taki fimm ár að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins er mjög langur tími. Ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir niðurgreiðslu skulda heldur lækkun sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þannig á að vinna á skuldunum. Þá hefur ríkissjóður lítið svigrúm. Nýrrar ríkisstjórnar bíður því vandasamt verkefni. Huga þarf vel að forgangsröðun fjármuna ríkisins í erfiðum aðstæðum og því sem fram undan er, vegna þess að það er óvissa fram undan.

Herra forseti. Mig langar í lokin að vitna í ágætan hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason. Hann segir að sá mikli halli sem nú sé kominn á ríkissjóð geti dregið efnahagsáhrif veirufaraldursins á langinn. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni. Hagvöxtur þurfi að vera mjög mikill ef ekki eigi að koma til niðurskurðar eða skattahækkana. Sá hagvöxtur sé ekki fyrirsjáanlegur.