152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Frú forseti. Fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar mæli ég fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, eða framhald lokunarstyrkja.

Með frumvarpinu er lagt til að gildistími lokunarstyrkja verði framlengdur til 30. júní 2022. Að auki eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar sem koma til vegna þess tíma sem er liðinn frá gildistöku laganna og gildistöku annarra laga. Styrkirnir koma til viðbótar viðspyrnustyrkjum og styrkjum samkvæmt lögum um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund þá gesti sem tilgreindir eru í álitinu og umsagnir bárust frá Félagi atvinnurekenda og Viðskiptaráði Íslands. Nefndarálitið liggur frammi.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram, líkt og rakið er í nefndaráliti, að sumir rekstraraðilar hafa talið Skattinn og yfirskattanefnd leggja til grundvallar óþarflega þröngt mat á því hvaða rekstraraðilar teljist uppfylla skilyrði laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Rekstraraðilar sem töldu sér ekki annað fært en að loka eða töldu fyrirmæli sóttvarnayfirvalda eiga við sig hafi fengið synjun á umsókn sinni.

Í áliti meiri hlutans er áréttað að óhjákvæmilega komi upp tilvik þar sem vafi leikur á hvort rekstraraðili uppfylli skilyrði styrkjanna. Mikilvægt er að heilbrigðisyfirvöld hugi að því að öll fyrirmæli um takmörkun á starfsemi vegna sóttvarnaráðstafana séu sem skýrust og leitast sé við að takmarka þá réttaróvissu sem af þeim getur leitt. Lokunarstyrkir taka hins vegar eðli máls samkvæmt eingöngu til þess þegar rekstraraðila hefur beinlínis verið gert að loka eða stöðva starfsemi. Öðrum úrræðum, svo sem viðspyrnustyrkjum og styrkjum til rekstraraðila veitingahúsa sem hefur verið gert að sæta takmörkunum á starfsemi sinni, hefur verið ætlað að taka á því þegar rekstraraðilar hafa sætt öðrum takmörkunum. Með framlengingu á viðspyrnustyrkjum, samanber 291. mál, sem efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi til 2. umr. samhliða afgreiðslu málsins, munu rekstraraðilar hafa átt þess kost að sækja um styrki vegna tekjufalls frá 1. apríl 2020 til 1. apríl 2022.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til eina breytingu sem er tæknilegs eðlis og þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar í nefndaráliti meiri hlutans.

Frú forseti. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem lögð er til í nefndarálitinu. Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir formaður, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Eva Dögg Davíðsdóttir.