152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[16:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mér þótti rétt að koma hingað upp og segja að við í þingflokki Pírata styðjum þetta mál, við munum greiða því atkvæði okkar. Við erum ekki með á nefndaráliti meiri hlutans, hreinlega vegna þess að við hefðum viljað setja talsvert skýrari skilyrði fyrir því að fyrirtæki eigi rétt á lokunarstyrkjum, ákveðnar girðingar til að tryggja betri nýtingu á skattfé og til að tryggja að fyrirtæki sem mögulega gerast uppvís að brotum á kjarasamningum gagnvart starfsfólki eða því að skila CFC-skýrslum út af aflandseigum eða einhverju slíku, eins og áður hefur verið rætt, hafi ekki svona greiðan aðgang að skattfé. Aftur á móti tel ég að þetta séu mikilvægar mótvægisaðgerðir og mikilvægar aðgerðir til að koma til móts við þau fyrirtæki sem urðu beinlínis að loka starfsemi sinni vegna aðgerða yfirvalda. Ég geri þar af leiðandi ekki athugasemdir við að þetta sé sú leið sem ríkisstjórnin fer. Ég er hins vegar ekki með á nefndarálitinu vegna þess að ég hefði farið aðeins aðra leið. Ég vildi einfaldlega árétta þetta þar sem ég tel mikilvægt að það komi fram að það að við séum ekki á nefndarálitinu þýðir ekki endilega að við styðjum ekki málið. Við hefðum einfaldlega farið aðeins öðruvísi að þessu.