152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um Sundabraut, um að Alþingi álykti að fela innviðaráðherra að beita sér fyrir því að öllum undirbúningi við gerð Sundabrautar, með brú á milli Kleppsvíkur og Gufuness, verði hraðað eftir fremsta megni og framkvæmdir hafnar hið fyrsta og eigi síðar en fyrir árslok 2023. Framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2027 eða fyrr. Lagning Sundabrautar verði forgangsverkefni í samgöngubótum í landinu. Ráðherra greini Alþingi frá stöðu og framgangi málsins á 152. löggjafarþingi. Svo hljóðar tillaga til þingsályktunar.

Nauðsynlegt er að tryggja greiðar samgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er öllum ljóst. Í þeim tilgangi var ráðist í gerð Hvalfjarðarganga, tvöföldun Reykjanesbrautar og nú síðast fjölgun akreina á Suðurlandsvegi. Næsta skref er að leggja Sundabraut, þjóðveg sem þverar nesin frá Kleppsvogi áleiðis upp á Kjalarnes.

Sundabraut hefur verið á teikniborðinu í áratugi og hefur ítrekað verið til umræðu í aðdraganda borgarstjórnarkosninga sem mikilvæg framkvæmd fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið.

Sundabraut er afar mikilvæg fyrir byggðir á Vesturlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Greiðar samgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu eru forsenda atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Sundabraut myndi auðvelda mjög daglegt líf þeirra sem þurfa að ferðast daglega á milli Reykjavíkur og Vesturlands. Sundabraut myndi einnig auðvelda daglegar samgöngur í Árbæ, Grafarvogi, Grafarholti og Mosfellsbæ og gera umferð um Vesturlandsveg úr þessum hverfum greiðfærari. Á þessu svæði búa tugir þúsunda og ferðast flestir daglega um Vesturlandsveg.

Vegagerðin áætlar að Sundabraut myndi draga úr akstri sem nemur 60 milljónum kílómetra árlega. Það munar svo sannarlega um minna. Ef hægt er að stytta ferðatímann skilar það þjóðarbúinu verulegum ábata. Sundabraut dregur úr mengun með því að draga úr ferðatíma og þar með útblæstri bifreiða og væri þannig til verulegra bóta í loftslagsmálum. Óumdeilt er að Sundabraut er arðbært verkefni. Samkvæmt Vegagerðinni eru innri vextir framkvæmdarinnar metnir 10–12%, en til samanburðar er almennt talið að verkefni séu fýsileg ef innri vextir eru yfir 3,5%. Sundabraut er því þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin sem völ er á á Íslandi í dag.

Sundabraut er ekki aðeins til þess fallin að auka skilvirkni. Hún eykur einnig öryggi. Það skiptir miklu fyrir viðbragðsaðila að geta ferðast á skilvirkan hátt til og frá Reykjavík. Viðbragðstími skiptir öllu og eins og staðan er nú þarf ekki mikið að fara úrskeiðis til að lengja viðbragðstíma verulega. Þá er einnig mikilvægt að flóttaleiðir frá höfuðborgarsvæðinu séu nógu margar, og greiðfærar. Ef hamfarir eiga sér stað þurfa íbúar á höfuðborgarsvæðinu að eiga greiða leið út úr borginni. Það er eins með flóttaleiðir í vegakerfinu og brunaútganga í byggingu. Fjöldi þeirra skiptir máli upp á öryggi. Þetta er ekki síst mikilvægt nú þegar svo virðist sem hafin sé eldgosahrina á Reykjanesi, rétt fyrir sunnan Reykjavík. Ég minni t.d. á 50 ára afmæli lýðveldisins árið 1994 þegar allt varð stopp þegar höfuðborgarbúar ætluðu að sækja afmælishátíðina til Þingvalla.

Gerð Sundabrautar hefur tafist allt of lengi. Sundabraut var fyrst sett fram árið 1975 og kom fyrst inn á aðalskipulag Reykjavíkur árið 1984, en vegna flokkspólitískra deilna í Reykjavík var verkefninu sífellt frestað. Upphafleg lega Sundabrautar var útilokuð með skipulagsbreytingum er land við Gelgjutanga var nýtt undir íbúðauppbyggingu. Það var miður, enda snertir framkvæmdin ekki aðeins hagsmuni borgarbúa heldur allra landsmanna. Ég tek fram að hér er ekki verið að tala um Sundabraut við Gelgjutanga heldur með brú á milli Kleppsvíkur og Gufuness.

Um greinargerð starfshóps um Sundabraut: Í maí 2020 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp til að vinna greiningarvinnu á þeim valkostum sem eftir standa við þverun Kleppsvíkur. Markmið með skipan starfshópsins var að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir til ákvörðunartöku um legu Sundabrautar frá Sæbraut að Vesturlandsvegi í Kollafirði. Starfshópurinn hóf vinnu sína í júní 2020 og skilaði greinargerð um málið í janúar 2021.

Í greinargerðinni kemur fram að þær megintillögur sem nú liggja fyrir um þverun Kleppsvíkur gera annars vegar ráð fyrir jarðgöngum og hins vegar brú sem tengist Sæbraut til móts við Holtaveg. Reykjavík hefur lýst yfir andstöðu við þverun Kleppsvíkur með brú. Árið 2008 samþykkti borgarstjórn tillögu um áskorun til samgönguráðherra og samgöngunefndar Alþingis um að menn beittu sér fyrir því að Sundabraut yrði lögð í göngum.

Niðurstöður greinargerðarinnar gefa skýrt til kynna að Sundabrú sé hagkvæmari valkostur en Sundagöng. Áætlað er að Sundabrú sé um 14 milljörðum kr. ódýrari í framkvæmd en Sundagöng. Heildarkostnaður við Sundabraut frá Sæbraut að Kjalarnesi með Sundabrú yfir Kleppsvík verði um 69 milljarðar kr. en með Sundagöngum um 83 milljarðar kr. Það munar svo sannarlega um minna. Þá kemur fram að umferð verði 20% minni um Sundagöng en Sundabrú. Báðir valkostir voru metnir með tilliti til áhrifa á hafnarstarfsemi en hvorugur var talinn líklegur til að raska hafnarstarfsemi verulega.

Ég vil vekja athygli á því að í þessari tillögu er Alþingi að lýsa því yfir að það telji Sundabrú hagkvæmasta kostinn en í allri umræðu í fjölmiðlum og í samfélaginu virðist eingöngu talað um Sundabraut. Ég tel sem flutningsmaður þessarar tillögu að núna þurfum við að fara að tala um Sundabrú eða Sundagöng og að Alþingi þurfi að lýsa því yfir að sá valkostur sem verður valinn í framtíðinni verði Sundabrú. Það er sá valkostur sem á að velja og hann verður valinn sama þótt menn vilji Sundagöng. Munurinn er einfaldlega allt of mikill. Það er 14 milljarða verðmunur. Sundabrú er 14 milljörðum kr. ódýrari framkvæmd en Sundagöng, eins og ég sagði áðan, og einnig verður umferð 20% minni um Sundagöng en Sundabrú. Tölurnar tala sínu máli. Sundabraut er miklu betri valkostur, bæði hvað varðar notkun og fjármuni. Það er 14 milljarða kr. munur. Það má byggja göng úti á landi, ein eða tvenn göng, fyrir þá fjárhæð. Þetta er allt of dýrt. Ef Reykjavíkurborg krefst þess að það verði Sundagöng þá ætti Reykjavíkurborg að greiða þá fjárhæð. Það er grundvallaratriði til undirbúnings þessa máls að tekin verði ákvörðun um hvort það verði Sundabrú eða Sundagöng. Það er ekki hægt og ekki boðlegt lengur að endalaust sé verið að tala um Sundabraut. Það verður að fara að tala um hvernig mannvirki á að vera og það er Sundabrú og það þarf að byrja að hanna þá brú sem allra fyrst.

Ljóst er að komið er að ákvörðunartöku um það hvort byggð verði Sundabrú eða Sundagöng. Þetta er ákvörðun sem ríkisvaldið verður á endanum að taka af því að það er ríkisvaldið sem mun greiða þetta fyrst og fremst. Ef Reykjavíkurborg er á móti byggingu Sundabrúar er mikilvægt að sú skoðun komi fram sem fyrst. Það er mikilvægt að það gerist nú á vormánuðum. Ekki er eftir neinu að bíða hvað það varðar.

Lagning Sundabrautar er ekki einkamál Reykjavíkurborgar og varðar hagsmuni íbúa landsbyggðarinnar miklu. Sundabraut myndi stytta svo um munar þann tíma sem tekur að aka á milli norðvesturhluta landsins og höfuðborgarinnar. Hún skiptir því miklu fyrir íbúa á þessum svæðum, ekki síst fyrir Akranes en brautin myndi styrkja verulega stöðu bæjarins sem hluta af atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Sundabraut er eðlilegt framhald Hvalfjarðarganga og hefði mikil áhrif á tengingu Vesturlands við höfuðborgarsvæðið. Það hefði jákvæð áhrif á atvinnulíf á svæðinu og yki t.d. aðgengi ferðamanna að Vesturlandi og áfram til Vestfjarða og Norðurlands vestra með bættum samgöngum. Ferðaþjónusta er stærsta atvinnugrein þjóðarinnar en í þessum landshlutum eru vannýttir möguleikar í ferðaþjónustu.

Mig langar að fjalla aðeins um yfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóra frá 6. júlí 2021 þar sem kemur fram að stefnt sé að því að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist eigi síðar en 2026 og að brautin verði tekin í notkun 2031, með eðlilegum fyrirvörum um niðurstöðu samráðs og umhverfismats. Aðilar eru sammála um að vinna hratt og vel að ofangreindum undirbúningi.

Ég vek athygli á því að þar er stefnt að því að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist eigi síðar en 2026 og að brautin verði tekin í notkun 2031. Það er ekki verið að fjalla um það hvers eðlis brautin er, hvort þetta eigi að vera brú eða göng, hvort eigi að grafa Sundagöng eða byggja Sundabrú. Það er grundvallaratriði svo hægt sé að byrja undirbúning að framkvæmdinni.

Í yfirlýsingunni eru ágæt fyrirheit, en eins og svo oft áður er verið að fresta verkefninu. Við getum ekki beðið í áratug í viðbót eftir Sundabraut. Auk þess teiknar yfirlýsingin upp ferli sem getur hæglega tekið mun lengri tíma. Skipulagsbreytingar og mat á umhverfisáhrifum og annar undirbúningur fyrir stórframkvæmdir tekur iðulega mun lengri tíma en áætlað er í byrjun og áður en undirbúningur hefst. Dæmin sanna það. Það tók marga áratugi að hefja vegaframkvæmdir um Teigsskóg og það sama kann að gerast hér, nákvæmlega það sama.

Ég get tekið dæmi. Ég var lögfræðingur Skipulagsstofnunar á árunum 2002–2006 og þá var ég að vinna að skipulagi Teigsskógs. Þær framkvæmdir eru ekki enn þá hafnar. Ég held að það eigi að hefja þær í sumar, þessar gríðarlega mikilvægu vegaframkvæmdir um Teigsskóg. Það eru sennilega 20 ár, segjum 18 ár, síðan þetta var á skipulagsstigi. Það er búið að kæra það mál fram og til baka og ríkisvaldið hefur ekki staðið í lappirnar, annars hefði þessi mikilvæga samgöngubót fyrir Vestfirði, sem vegur um Teigsskóg er, getað komist til framkvæmda og verið lokið fyrir mörgum árum.

Af þessum sökum er mikilvægt að öllum undirbúningi fyrir framkvæmdirnar verði flýtt eins og kostur er. Mikilvægt er því að Alþingi lýsi yfir með skýrum hætti að Sundabraut sé það mikilvæg vegaframkvæmd að hún eigi að vera forgangsmál í samgöngumálum. Þetta er þjóðhagslega langhagkvæmasta vegaframkvæmd sem hægt er að fara í, eins og ég benti á áðan. Alþingi ætti að vera tilbúið að beita lagasetningarvaldi sínu til að koma í veg fyrir óeðlilegar tafir á undirbúningi framkvæmdarinnar. Ef þörf er á lagabreytingum vegna lagningar Sundabrautar sýnir þessi tillaga, verði hún samþykkt, að vilji er til þess af hálfu þingsins.

Við verðum að hefja framkvæmdir sem fyrst. Ákvörðun um það hvort byggja eigi Sundabraut eða Sundagöng verður ekki byggð á félagshagfræðilegri greiningu. Hún hefur reyndar komið fram. Það var óskað eftir henni á sínum tíma en það verður ekki byggt á henni eingöngu. Það þarf að byrja skipulagsvinnuna og það þarf að byrja mat á umhverfisáhrifum og það þarf að byrja hönnun sem allra fyrst.

Mig langar að víkja nokkrum orðum að félagshagfræðilegri greiningu sem kom út nú á dögunum, með leyfi forseta:

„Þjóðhagslegur ábati af Sundabraut“ — og ég tek fram að það er alltaf talað um Sundabraut en ekki Sundabrú eða Sundagöng — „er hér metinn á bilinu 186 og 235 milljarðar, núvirt á verðlag ársins 2021 yfir 30 ára tímabil greiningarinnar. Innri raunvextir eru metnir á bilinu 11,5% - 12,2%, mismunandi eftir útfærslum.“

Það eru því gríðarlegir hagsmunir í húfi, allt að 235 milljarða kr. í þjóðhagslegan ábata og það munar svo sannarlega um minna.

Niðurstöður starfshóps Vegagerðarinnar á sínum tíma, eins og hefur komið fram, sýna að Sundabrú er miklu hagkvæmari kostur, bæði hvað varðar nýtingu og fjármuni.

Skipulagslög og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana kveða á um hið lögbundna undirbúningsferli framkvæmda. Mikilvægt er að hefja það sem fyrst og án allra tafa þegar kemur að undirbúningi að lagningu Sundabrúar, þ.e. ef ákvörðun verður tekin um Sundabrú, sem ég tel mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að Alþingi leggi áherslu á. (Forseti hringir.)

Hér er um mjög mikilvæga framkvæmd að ræða (Forseti hringir.) og ég tel að þetta sé það mikilvægt atriði að það ætti að fá fljóta og góða afgreiðslu í samgöngumálanefnd (Forseti hringir.) og fara svo til 2. umr.