152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er mjög góð spurning. Ég vona að við séum sammála um það að þetta er þjóðhagslegur ábati, gríðarlegur þjóðhagslegur ábati, allt að 235 milljarðar kr., og skiptir mjög miklu fyrir landsbyggðina. Það styttir vegalengdina um hálftíma upp á Akranes og Vesturland og áfram norður. Með þessari þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram mun Alþingi lýsa vilja sínum um að það verði byggð Sundabrú, framar en Sundagöng. Rökin fyrir því eru að Sundabrú er 14 milljörðum ódýrari heldur en Sundagöng og það er 20% minni nýting á Sundagöngum hvað varðar umferð en á Sundabrú. Hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur gætu líka nýtt Sundabrú en ekki göng. Ef ríkisvaldið lýsir því yfir að það vilji Sundabrú út af þessum rökum en Reykjavíkurborg óskar eftir Sundagöngum þá verður Reykjavíkurborg að koma með skýr rök fyrir því og svar um hver eigi að greiða þennan aukna kostnað. Ég tel að ef Reykjavíkurborg fer fram á að það verði Sundagöng þá verði að útskýra fyrir ríkisvaldinu hvernig eigi að greiða það. Ég tel að sá aukni kostnaður hljóti að falla á borgina ef hún vill göng. Ég tek fram að það er langeinfaldast að taka ákvörðun strax um Sundabrú í staðinn fyrir að standa í stappi við Reykjavíkurborg í nokkur ár um það hvort eigi að vera brú eða göng þannig að það komi sameiginleg yfirlýsing um Sundabraut. Það er vilji núna að hefja framkvæmdir 2026, en í guðanna bænum farið að ákveða hvort það eigi að vera brú eða göng. Ég segi göng.

— Ég segi brú. (Forseti (ÁLÞ): Nákvæmlega.)