152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu Flokks fólksins. Allur flokkurinn stendur að þessari tillögu sem er frábært. En hversu mikla trú hefur maður á því að Sundabrautin komi? Ef ég horfi aftur í tímann þá hafði ég alveg gífurlega trú fyrir 35–40 árum á ofanbyggðavegi í Reykjavík. Þá var talað um ofanbyggðaveg þannig að þeir sem kæmu vestan að eða sunnan að eða suðurveginn þyrftu ekki að fara í gegnum öll sveitarfélög landsins nema Seltjarnarnes til að komast leiðar sinnar. Ég benti einhvern tímann á að það væri eiginlega frábært að gera hringtorg um Seltjarnarnesið svo það fengi nú að vera með í þeirri vitleysu. En því var lofað að þessi ofanbyggðavegur myndi koma og ég trúði því statt og stöðugt þegar ég flutti til Hafnarfjarðar. En þessi ofanbyggðavegur er ekki á dagskrá enn þá og eiginlega búið að eyðileggja hann. Kannski er draumur um það þegar var verið að ræða hér hringgöng eins og Færeyingar hafa gert neðan sjávar. Það gæti verið draumur um að setja hringgöng undir Reykjavík og tengja alla þessa vegi og jafnvel Miklubraut sem væri komin í stokk og þá væri hægt að gera neðanjarðarbraut til að bílar slyppu við að fara í gegnum öll sveitarfélögin til að komast leiðar sinnar en jafnvel í mínum villtustu draumum myndi ég segja að það væri útilokað.

Staðreyndin í þessu máli er að Reykjavíkurborg ætlar aldrei að fara í þetta. Það stendur aldrei til að fara í göng eða brú. Af hverju? Jú, vegna þess að þeir eru að tryggja það núna með því að hætta allt í einu að tala um brú og byrja að tala um göng og þá segja þeir bara að það eigi ekkert að gera í þessu máli næstu fjögur árin. Nú á að fara að kjósa til borgarstjórnar í Reykjavík og þeir ætla ekkert að gera í fjögur ár, ekki neitt í þessu máli. Það kom alveg skýrt fram að það á að fara að hugsa um þetta eftir fjögur ár, hugsa um þetta. Þess vegna styð ég heils hugar þessa brú. Það stendur í tillögunni að það eigi að byrja á þessari brú strax og klára hana fyrir 2027. Það væru alvöru vinnubrögð og væri óskandi að við myndum samþykkja þetta. En það held ég að sé, eins og ég segi, draumur í dós en ekki raunveruleika.

Það er búið að sýna fram á að Sundabrautin sé hagkvæm, búið að sýna fram á að eitthvað verði að gera. Kannski var, megum við segja, heppni að í öllum Covid-faraldrinum þurftum við ekki að ferðast á milli eins og fyrir tveimur árum síðan þegar ég var að ferðast frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Þar náði ég mest að vera í nærri tvo tíma á leiðinni sem yfirleitt tekur 10–15 mínútur, sem sýnir hvernig vegakerfið er orðið í Reykjavík og þetta er því miður að byrja aftur. Við erum að átta okkur á því núna. Þegar við erum að leggja af stað til þess að fara hingað á þing og mæta klukkan hálfníu eða níu eða fyrr á morgnana þýðir það að við þurfum lágmark að áætla klukkutímaforskot áður en við leggjum af stað, sem segir okkur auðvitað að vegakerfið er gjörsamlega sprungið og stendur ekki til á nokkurn hátt að breyta því. Það er bara eitt sem þessi meiri hluti Reykjavíkurborgar einblínir á og það er borgarlína sem á að kosta óhemjufé, margfalt meira en þessi brú — eða þetta verður aldrei ein brú, þetta verða brýr sem þarf að hafa til að komast þarna yfir sundin og upp á Kjalarnes.

Þessi framkvæmd hefði með réttu löngu átt að vera komin á og einnig ætti að vera löngu búið að gera ofanbyggðaveg. Það verður mjög erfitt að tengja þannig að bílar sem koma að vestan og ætla á Suðurnesin þurfi ekki að fara fyrst inn í Reykjavík, síðan í Kópavog, síðan inn í Garðabæ, síðan inn í Hafnarfjörð og síðan suður úr. Hugsið ykkur þessa heimsku. Ég hef keyrt á mörgum stöðum í Evrópu, keyrt niður alla Danmörku en frá Kaupmannahöfn og alla leið niður að þýsku landamærunum hef ég ekki þurft að fara í einn einasta bæ, ekki einn einasta bæ nema ég ætti leið inn í bæinn. Svoleiðis eigum við að byggja. En er þetta til hér? Nei. Við virðumst ekki einu sinni hafa minnsta sans á því að reyna að gera eitthvað svona. Hausnum er bara stungið í sandinn og sagt: Nei, nú bara stoppum við bílana, nú eiga allir að hjóla eða labba. Ég kem aldrei til með að hjóla, enn síður að labba og það sem er merkilegast er að þeir eru svo þröngsýnir, þeir sem stjórna umferðarmálum í Reykjavíkurborg, að þeir eru tilbúnir til að setja allt sem þeir geta til að varna því að jafnvel þeir sem eru fatlaðir á bílum geti lagt eða komist leiðar sinnar í borginni. Það eru meira að segja sett blómaker á stæði fatlaðra til að stoppa það að þeir skuli dirfast að vera að fara niður í bæ að reyna að sinna erindum sínum.

Þess vegna segi ég: Ég styð þessa tillögu heils hugar og vona heitt og innilega að hún nái fram að ganga. En til þess held ég að eina leiðin sé að fella meiri hlutann í Reykjavíkurborg þannig að hann geti ekki staðið í vegi fyrir þessu.