152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Sundabraut — þau okkar sem hafa búið uppi í Kjós vita að það að fá brú eða göng frá Kjalarnesinu niður í Reykjavík myndi spara okkur ansi mikinn tíma, að þurfa ekki að keyra lengur í gegnum allan Mosfellsbæ. Ég segi stundum enn þá Mosfellssveit af því að ég byrjaði að keyra þessa leið þegar bærinn hét enn Mosfellssveit. Það er kannski einmitt dæmi um þetta, það er búið að tala um þessa brú eða þessi göng í tugi ára. Ég las einhvers staðar í greinargerðinni að tillaga hefði verið samþykkt í borgarstjórn 2008. Ég er viss um að menn voru byrjaðir að tala um þetta miklu fyrr. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því og hugsum svolítið út í það að atvinnusvæðið, höfuðborgin, er að stækka óðfluga. Það er að stækka í allar áttir. Það er að stækka upp á Akranes, Borgarnes og í Kjósina. Það er líka að stækka í suður; á Reykjanesið, Suðurlandið, Selfoss. Ég heyrði viðtal við sveitarstjórann, eða bæjarstjórann eða hvað það er kallað, í Árborg þar sem þeir búast við að fá þúsundir nýrra íbúa. Þeir eru ekki allir endilega að fara að vinna á því svæði heldur eru þeir einmitt að fara að keyra inn í borgina. Þá þurfum við ekki bara að hugsa um eina braut heldur þurfum við, eins og hv. þingmaður nefndi hér á undan, að hugsa út í þetta heildstætt. Við erum voðalega dugleg við að horfa bara á einn hlut í einu.

Mér fannst gott dæmið sem stjúpfaðir minn, sem var bæjarstjóri í Hafnarfirði fyrir þó nokkuð mörgum árum, sagði mér frá. Þegar verið var að búa til tvöföldunina á Reykjanesbrautinni í gegnum Hafnarfjörð þá bauðst verktakinn til að lána tvöföldunina vaxtalaust til 20 ára. Á þeim tíma var bara verið að leggja einfalda leið þarna í gegn. Þau ykkar sem hafa keyrt þarna í gegn nýlega vita að það er tiltölulega stutt síðan, kannski tvö ár, að vegurinn var loksins tvöfaldaður. Þeim var boðið vaxtalaust lán til 10–15 ára til að gera þetta bara tvöfalt um leið. Af hverju? Jú, vegna þess að það kostaði bara 15% meira að leggja tvöfalt þá, í stað þess að leggja einfalt núna. Og svo núna, 15 eða 20 árum seinna, er loksins búið að tvöfalda veginn fyrir örugglega tífalt það sem borgað var fyrir upprunalegu, einbreiðu brautina. Svona erum við stundum skammsýn þegar við erum að gera hlutina.

Við þurfum að taka okkur saman, bæði á þinginu og í sveitarfélögunum, og komast að sátt um það hvernig við byggjum upp samgöngukerfi hér á þessu svæði og í nágrenninu sem virkar fyrir alla. Það eru mismunandi skoðanir. En ég er viss um að ef við hættum að henda eggjunum hvert í annað og kenna einum um þetta og hinum um hitt þá gætum við alveg komist að samkomulagi. En þá þurfum við líka að passa að við gerum samkomulag þar sem hugsað er um það hvernig hlutirnir eru að breytast. Hugsum ekki bara til næstu fimm ára eða næstu tíu ára heldur eins langt og við getum vegna þess að okkur á bara eftir að fjölga og svæðin hérna í kring eiga bara eftir að stækka. Við getum búið í þeim draumheimi að ekkert af þessu muni gerast, en við getum líka búið í þeim draumheimi að við getum komið okkur saman um þessa hluti. Hvort það verður meðan við sem hér sitjum erum enn hér á Alþingi sem hv. alþingismenn eða hvort þetta verður sunnudagsbíltúr fyrir okkur gamalmennin verður bara að koma í ljós. En við þurfum að taka þessa umræðu og við þurfum að komast að niðurstöðu sem er öllum í hag. Það gerum við ekki ef við gerum það bara eitt og eitt. Við þurfum að finna samstöðuna, finna samvinnuna og tækla þau vandamál sem fyrir eru.