152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Brú eða göng, þetta er góð spurning. Hafandi búið erlendis þá hef ég séð báðar lausnirnar, göng undir sjó, brú yfir sjó. Ég hef meira að segja keyrt daglega flotbrú yfir vatn. Ég mæli ekki með því miðað við íslenskt veður, það myndi nú ekki ganga mjög vel. Það kemur fram í greinargerðinni með tillögunni að það sé um 14 milljörðum kr. ódýrara í framkvæmd að gera brú en göng. En það eru væntanlega einhverjar ástæður fyrir því að Reykjavíkurborg hefur verið að þrýsta á göng. Ég minnist þess að hafa heyrt talað um skipaumferð og jafnvel lífríki og annað. Mig langaði að heyra afstöðu hv. þingmanns. Fjármögnun á svona verkefni er náttúrlega alltaf stórt mál og það hefur verið talað um það, alla vega í umræðunni hér, að fjármögnun á svona verkefni yrði jafnvel með notendagjöldum, eitthvað sem ég er ekkert allt of hrifinn af. En 14 milljarðar, aðeins hærri notendagjöld og ná fram kannski einhverjum öðrum áhrifum. Hver er afstaða hv. þingmanns til þess að mismunurinn á kostnaðinum ætti kannski að vera mismunurinn í gjöldum?