152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

kaup á nýrri Breiðafjarðarferju.

46. mál
[19:12]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Tillagan miðar að því að það verði hreinlega ferja sem uppfylli nútímakröfur. Ferjan sem er í dag svona þriðja heims skip. Ég get lofað þér því, hv. þingmaður, að þetta skip verður annaðhvort sent í brotajárn — Norðmenn ætluðu að senda nákvæmlega þetta skip í brotajárn — eða það verður selt til þriðja heimsins. Gæði? Þetta er raunverulega spurning um að fá nútímaskip, það er það sem er undir hérna, sem getur sinnt íbúum svæðisins, ferðaþjónustu og atvinnulífi. Það er ekki verið að fara fram á mikið, það er bara verið að fara fram á að þetta verði nútíminn. Skipið sem er núna er eldgamalt. Það er ekki með varavél eða neitt. Öryggismálin eru líka í algjörum ólestri. Ferjan á undan var gömul ferja frá Hollandi, hún var betri fyrir farþega. Svo var þessi ferja keypt sem er miklu verri fyrir farþega en betri fyrir þungaflutninga. Núna er bara farið fram á að það verði nútímaferja fyrir farþega og flutninga. Við erum ekki að tala um einhverjar rosalegar upphæðir, þetta eru 4,5–5 milljarðar, þetta eru bara eðlilegar samgöngubætur, fyrir vegakerfið líka, það myndi létta álaginu af vegakerfinu. Við erum eyja. Við siglum ekki einu sinni með vörur í kringum eyjuna. Og varðandi leiðina þá tel ég leiðina Stykkishólmur–Flatey–Brjánslækur vera bara mjög góða og ég sé ekki alveg fyrir mér að það fari að breytast. Hérna er verið að tala um að jafna búsetuskilyrði með því að hafa nútímalega ferju. Þannig er nú bara það. Þetta er ekkert risamál en þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir Vestfirði og Snæfellsnes líka.