132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[15:52]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns félagsmálanefndar, Sivjar Friðleifsdóttur, skrifaði ég undir þetta nefndarálit með fyrirvara og í stuttu máli vildi ég gera grein fyrir því hvers vegna ég gerði það.

Það er einkum eitt atriði sem ég vildi gera athugasemdir við en það er að sveitarfélögin hafa ekki um það val hvort þau láti leggja á í Landskrá fasteigna heldur verður þeim gert skylt að gera það.

Við lögðum talsverða áherslu á það í umræðu í nefndinni að sveitarfélögin fengju val um þetta efni. Án efa vilja mörg sveitarfélög halda utan um sín mál sjálf, afgreiða þetta sjálf, en hins vegar varð þetta niðurstaðan. Kannski má segja sem svo að vegna þess hve gríðarleg fjárfesting hefur verið í Landskrá fasteigna — við fengum það fram í umræðum í nefndinni og frá Landskrá fasteigna að undanfarin fjögur ár hefur kostnaður við að byggja þetta upp verið allt að 2 milljarðar, þ.e. til ársins 2004. Ekki liggja fyrir kostnaðartölur fyrir árið 2005 og vitaskuld ekki heldur fyrir árið 2006 því þetta á að taka gildi 1. janúar 2007. En ef sami kostnaður verður þau ár sem ég nefni hér verður kostnaður við að koma þessu öllu í Landskrá fasteigna hugsanlega um það bil 3 milljarðar.

Alltaf er erfitt að meta nákvæmlega hvort um góða fjárfestingu er að ræða eða ekki, hvort skipulagi og utanumhaldi um fasteignir landsmanna verði betur fyrir komið þarna en nú er, um það er ákaflega erfitt að fullyrða. Ég hef haft á tilfinningunni undanfarin ár að þessi þróun hafi gerst dálítið sjálfala, þ.e. þetta hefur verið eins og snjóbolti sem hlaðist hefur utan á. Nú er svo komið að þessi uppbygging mun sennilega kosta ríkissjóð upp undir 3 milljarða. Það eru gríðarlegir fjármunir. Í því ljósi má kannski telja það eðlilega niðurstöðu að félagsmálanefnd og meiri hlutinn á Alþingi sé ekki tilbúinn að fallast á það að sveitarfélögin hafi val um að ganga inn í þetta. Sú hætta er þá fyrir hendi að þessi fjárfesting fari fyrir lítið. Fyrirvari minn, þegar málið var afgreitt, laut að þessu. Hann lýtur kannski meira að fortíðinni og hvernig haldið hefur verið á málum sem ekki verður breytt nú. Það breytir því ekki að ég hefði talið eðlilegt að sveitarfélögin hefðu um þetta tiltekið val en ekki var meiri hluti fyrir því í nefndinni.