137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

uppgjör vegna gömlu bankanna.

[15:19]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég get að mestu tekið undir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur um nauðsyn þess að hið opinbera taki á sig sem minnst af þeim áföllum sem dunið hafa á íslenska fjármálakerfinu. Það er vissulega eitt af þeim mikilvægustu leiðarljósum sem horft er til við endurskipulagninguna. Ég get jafnframt tekið undir það að það væri að flestu leyti afar æskilegt ef erlendir kröfuhafar mundu verða beinir eigendur nýju bankanna þótt ekki væri nema að hluta. Það mundi auðvelda bönkunum aðgengi að erlendum mörkuðum, það mundi auðvelda okkur að gera upp í eins þokkalegri sátt og hægt er að vonast eftir við kröfuhafa gömlu bankanna. Það mundi þýða að álagið á fjárhag okkar allra, sameiginlegan fjárhag ríkisins, yrði minna en ella. Það væri því í alla staði ákjósanleg niðurstaða ef hægt er að semja um hana.