138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

einkaframkvæmdir í vegagerð og veggjöld.

[12:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið rætt nokkuð um mögulegar einkaframkvæmdir í samgöngumálum að undanförnu og hafa m.a. verið nefndar þar framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar og Vaðlaheiðargöng. Í tengslum við þá umræðu hafa einnig verið ræddir möguleikar á því að fram fari sérstök gjaldtaka, að haft verði svokallað veggjald þar sem innheimt verður af þeirri umferð sem fer um þessa vegi eða þá aðra. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra hvernig það er hugsað, hvaða fyrirkomulag er hugsað á þeim rekstri, hvort þar verður farin sama leið og varðandi Hvalfjarðargöng — þar var stofnað sérstakt fyrirtæki, Spölur, sem rekur þau göng og skilar síðan til ríkisins — eða hvort einhverjar aðrar hugmyndir eru uppi.

Samkvæmt upplýsingum sem komu fram frá hæstv. ráðherra í umræðu á þingi í síðustu viku kynnti hann að til stæði að á næsta ári yrði um 10 milljörðum varið til samgönguframkvæmda fyrir utan einkaframkvæmdir. Ég vil inna ráðherrann eftir því hversu há upphæð er hugsuð í þessar einkaframkvæmdir, hvenær megi vænta fyrstu útboða vegna þeirra verkefna sem hér um ræðir, hugsanlega Suðurlandsvegar eða Vaðlaheiðarganga, og hvenær fyrstu framkvæmdir eru væntanlegar í tengslum við þetta.