141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

opinber innkaup.

[10:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það væri reyndar áhugavert að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem fyrrverandi iðnaðarráðherra sem kom hér ítrekað og fagnaði væntanlegri uppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Ég hvet ríkisstjórnina til dáða í því að standa við það í verki en ekki bara í orði, eins og mér heyrðist vera gert í fyrirspurninni áðan.

Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra varðandi opinber innkaup og ríkiskaup. Heyrst hefur að ýmsar stofnanir standi sjálfar fyrir innkaupum sínum, sumar í krafti stærðar sinnar en aðrar einhverra annarra hluta vegna.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar og ráðherra að beina öllum innkaupum til Ríkiskaupa samkvæmt lögum um opinber innkaup til að ná fram sem mestri hagræðingu í rekstri og innkaupum. Eru á því einhverjar augljósar undantekningar? Ég vildi gjarnan heyra það frá hæstv. ráðherra ef svo er. Ef stofnanir standa sjálfar að innkaupum gegn stefnu ríkisstjórnarinnar eða lögum um opinber innkaup, hvaða úrræði hefur hæstv. ráðherra til taka á slíkum hlutum?

Að lokum, hefur ráðherra vitneskju um að einhverjar ríkisstofnanir, og þá hvaða stofnanir, hafi tekið að sér útboð fyrir aðrar sambærilegar stofnanir, hugsanlega minni, á landinu?