144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Ég kunni ekki við að nefna þessa skoðanakönnun í framsöguræðu minni því Píratar létu Capacent Gallup gera hana, en hún er afar áhugaverð. Hún sýnir að það er ótrúlega hátt hlutfall Íslendinga sem setur heilbrigðismálin í forgang og þar á eftir koma mennta- og fræðslumál. Það gladdi mig sannarlega að sjá þetta skjalfest vegna þess að þetta hefur einmitt verið stefna ríkisstjórnarinnar í það eina og hálfa ár sem hún hefur setið; heilbrigðismálin og svo að styrkja menntakerfið.

Til þess að bregðast við spurningunni þá er það svo t.d. varðandi Landspítalann að aldrei hafa farið hærri fjárhæðir til starfsemi spítalans en í ár. Við fjárlagagerðina 2014 var bætt við 3 milljörðum og í lokafjárlögum voru skornir niður 2,2 milljarðar af uppsöfnuðum halla, þannig að við höfum gert mjög vel við Landspítalann. En auðvitað (Forseti hringir.) þarf að vera skipulag og það þarf að vera samtal á milli stjórnvalda og þeirra sem sjá um heilbrigðismál í landinu þannig að það verði ekki þessi pirringur (Forseti hringir.) og misskilningur sem á sér stað. Betur má ef duga skal. Það eru tvenn (Forseti hringir.) fjárlög eftir enn í tíð þessarar ríkisstjórnar.